Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


16.02.2021 23:08

Góður vinur kvaddur

Það eru liðlega fimmtíu ár síðan við Svavar Gestsson hittumst fyrst, á Gildaskálanum í Aðalstræti; hann vestan úr Dölum, ég ofanúr Þingholtunum. Vorum þar í fámennum en góðmennum hópi ungra manna sem vildu hafa áhrif til góðs fyrir land og lýð og bæta samfélagið. Örlögin höguðu því svo að síðar áttum við eftir að vinna mikið saman, í Æskulýðsfylkingunni og Alþýðubandalaginu og um stund í Samfylkingunni áður en við völdum hvor sinn flokkinn. En ekki síst á Þjóðviljanum, sem var bæði sérstakur vinnustaður og skemmtilegur.

Mér er minnisstætt þegar við sátum í herberginu hans í Þórshamri 1978 og þessi fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og nýkjörni þingmaður var allt í einu orðinn ráðherra viðskiptamála, og þar með bankamálaráðherra. Starfsmenn Þjóðviljans, eða raunar blaðið sjálft, voru áreiðanlega ekki með gjöfulustu viðskiptavinum bankanna þá, fremur en síðar. Við flissuðum og hlógum jafnvel að þessari að okkur fannst geggjuðu stöðu áður en formlegheitin gátu hafist og ég tekið viðtal við nýjan ráðherrann fyrir blaðið okkar.

Seinna fór hann svo í diplómatíuna eftir viðburðaríkan feril í  pólitíkinni. Þótti ekki öllum gæfulegt að þessi fyrrum allaballi, hernáms- og Nató-andstæðingur yrði hluti af þeirri innvígðu sveit. Slíkur hafði enda aldrei komist til metorða á því sviði. En hann sinnti þeim störfum með sóma eins og öðru. Byrjaði sem ræðismaður í Kanada, síðar sendiherra í Svíþjóð og loks í Danmörku, þar sem hann lauk sinni opinberu starfsævi. Árið 2000 naut ég gestrisni þeirra Guðrúnar, þegar rútufylli ferðalanga sem ég leiðsagði um Íslendingaslóðir þáði heimboð þeirra hjóna í síðdegissamkomu. Svo aftur seinna í Stokkhólmi þegar við nokkrir íslenskir kennarar á leið til norrænnar námsstefnu vorum boðin til spjalls og góðgerða á heimili þeirra. Rausnarlegir og skemmtilegir gestgjafar í þessu hlutverki eins og öðrum.

 

Fyrir sex árum eða sjö hafði hann svo samband og bað mig taka þátt í að endurreisa Breiðfirðing, rit Breiðfirðingafélagsins.Hann hafði tekið að sér að stjórna því starfi sem ritstjóri ritsins. Næstu fimm árin voru einstaklega skemmtileg; árlegar ferðir um byggðirnar við Breiðafjörð til efnisöflunar og myndatöku og ég kynntist merkilegum landshluta sem ég hafði satt að segja ekki kynnt mér sérlega vel fyrstu sjötíu ár ævinnar. Nú kynntist ég ekki aðeins því fólki sem lifir og hrærist umhverfis Breiðafjörð og eyjunum heldur ekki síður margbreytilegri sögunni, menningunni sem ég komst að að er allt um kring. Og þá var gott að vera í félagsskap Svavars, hvílíkur hafsjór fróðleiks, þekkingar og frásagnargleði. Hún var býsna ómerkileg sú þúfa sem hann ekki þekkti eða þá sem tyllt höfðu þar staf sínum í aldanna rás. Sama um eyðibýli og bæjarrústir.

Sú ákvörðun var tekin af ritstjóra og ritnefnd Breiðfirðings í upphafi þessa starfs að í ritinu yrði fjallað um allar byggðir við Breiðafjörð; frá Hellissandi og Rifi í suðri til Tálknafjarðar í norðri. Það var gert. Listamenn og þjóðgarður á Hellissandi og nágrenni, æðarækt á Rifi, staðbundið skólastarf og fjarkennsla í Grundarfirði og atvinnurekstur víða um fjörðinn. Heimsótt elliheimili í Búðardal og verslun á Reykhólum. Saga húsanna og fuglalíf í Flatey, mannlíf og tæknivætt seiðaeldi í Tálknafirði. Rætt um stjórnsýslu við bæjarstjóra og hafnarstjóra, svo eitthvað sé nefnt. Það átti að kynna mannlífið umhverfis fjörðinn.

Síðasta ferðin var í Tálknafjörð, sem strangt til tekið er alls ekki við Breiðafjörðinn, en lega staðarins er þannig að það væri eiginlega hálfgert svindl að hafa hann ekki með. Guðrún Ágústsdóttir, eiginkona Svavars, var með í för og eftir gott dagsverk á staðnum fengum við okkur að snæða á litlum veitingastað í þorpinu. Þetta var mjög eftirminnilegur kvöldverður. Um leið og aðrir matargestir áttuðu sig á hver þarna sat að snæðingi gerðu þeir sér óðara erindi að borðinu til okkar, að spjalla við Svavar. Til sumra þekkti hann ef að minnsta kosti annað foreldri viðkomandi var nefnt, en ef hann þurfti að spyrja að uppruna þekkti hann óðara næstu ættkvíslir í bæði föður- og móðurætt og gat jafnvel sagt af þeim sögur. Og honum fannst þetta ósegjanlega gaman. Var í essinu sínu. Við Guðrún snæddum okkar ljómandi góða kvöldverð og hlustuðum af athygli og skemmtan.

Ást Svavars á Breiðafirði var án skilyrða. Nema að einu leyti. Hann vildi ekki fara sjóleiðina yfir fjörðinn; ekki sigla, ekki að ræða það. Eins og hann orðaði það við mig, glottandi: Ég myndi elska Breiðafjörðinn enn meira ef ekki væri allt þetta vatn í honum!

Mikil og víðfeðm söguþekking og fróðleiksfýsn Svavars var áreiðanlega hluti þess drifkrafts sem dreif hann áfram í menningarmálum Dalabyggðar. Hann unni sveitinni sinni, Dölunum og vildi veg hennar sem mestan. Gullni söguhringurinn, Vínlandssetur, uppbygging Staðarhóls í minningu Sturlu Þórðarsonar. Krafturinn óendanlegur. Og þau Guðrún reistu sér lítinn framtíðarstað þar sem heitir í Hólaseli á yndislegum stað þar sem vestursýnin yfir fjörðinn gerist vart fegurri. 

Fjölskylda Svavars Gestssonar, Guðrún, börn, tengdabörn og barnabörn, hefur misst mikið. Dalamenn og -konur sjá nú einnig á bak dugnaðarforki í að efla sögumenningu byggðanna. Sjálfur sakna ég vinar í stað. En minning Svavars Gestssonar mun lifa til frambúðar í árangrinum af frumkvöðlastarfi hans fyrir byggðina sem hann unni svo mjög.

 

Haukur Már Haraldsson

21.09.2019 09:17

04.10.2018 14:25

Haraldur bróðir kvaddur

 

Minningarorð

Haraldur Örn Haraldsson

 

Hann Haraldur bróðir minn fékk tónlistina í vöggugjöf. Hafði af henni yndi og dægrastyttingu alla sína ævi. Sérhver dagur var tónlistardagur.

Haraldur Örn fæddist blindur, en var svo heppinn að eiga föður sem var ekki bara áhugamaður um klassíska tónlist, heldur spilaði auk þess á píanó heimilisins verk meistaranna eftir nótum. Mér er brennt í minni þegar þessi litli bróðir minn sat í kjöltu föður síns og nam píanóleik með því að fylgjast með handahreyfingum hans. Hann rétt náði upp á nótnaborðið þegar hann byrjaði að spila sjálfur og þar sem bilið milli nótna var of langt fyrir hans litlu hendur notaði hann nefið á nótnaborðið. Það þótti okkur magnað að horfa á.

Þannig kynntist hann sígildri tónlist strax í æsku og kunni að meta hana alla tíð. En hún vék úr öndveginu fyrir amerískri sveitatónlist, kántrí, með tíð og tíma.

Eftir fermingu, þegar Haraldur var þrettán ára, fór hann utan til náms. Hafði lokið barnaskólanámi í Blindraskólanum við Bjarkargötu og síðan fullnaðarprófi frá Breiðagerðisskóla og nú fór hann til Osló í gagnfræðaskóla fyrir blinda og sjónskerta. Þótt foreldrar og systkini yrðu eftir á Íslandi var hann ekki einn í Noregi. Helga föðursystir hans Wendelbo og Per maður hennar í Osló sáu til þess. Þau gættu hans vel og hann var þeim ævinlega þakklátur. Í fjögur ár stundaði Halli nám í Huseby, nám sem byggði hann upp fyrir framtíðina; hann stundaði útivist, leikfimi, hestamennsku og jafnvel skiðagöngu, auk bóklegra greina og starfsgreina á borð við vélritun. En þarna í Huseby kynntist hann tveimur áhugamálum sem hann átti eftir að stunda af alefli; flugi og kántrímúsik. Hvað flugið snerti þróaði hann með sér hæfni til að þekkja allar flugvélategundirm á hljóðinu þegar þær flugu um  loftin blá. Í framtíðinni var eins gott fyrir okkur sem flæktust um að muna tegund þeirra flugvéla sem við flugum með, og undirtegundir líka. Og að fljúga var hans uppáhald. Ferðir innanlands og utan með Sigurði bróður eða starfsmönnum sambýlisins við Stigahlíð urðu margar; Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir, London, Manchester, Toronto og fleiri staðir voru heimsóttir fljúgandi.

Hitt áhugamálið var sveitatónlist, amerísk. Hann gerðist nánast sérfræðingur í því sem viðkom þessari tónlist; lögunum, söngvurunum og söngkonunum. Safnaði vinyl og geisladiskum í miklu magni.

Okkur bræðurna greindi á um ýmislegt, ekki síst trúmál. Haraldur var mjög einlægur í trú sinni og hún hjálpaði honum síðasta spölinn. Hann vissi hvert stefndi síðustu vikurnar, en kveið engu. Frekar að hann hlakkaði til. Það verður gaman að koma til guðs og hitta pabba og mömmu og Gunnar bróður, sagði hann.

04.05.2015 14:49

23.09.2014 10:50

Kveðjustund

Þessi öðlingur, stjúpi minn til 66 ára, lést 14. september sl. Hann hafði ekki hátt um sjálfan sig eða sína meðan hann lifði og hann kvaddi hljóðlega eftir hjartaáfall, umkringdur börnum og barnabörnum. Þá var ég staddur í fjarlægu landi.

Í minningunni er það svo að Haraldur Örn Sigurðsson, klæðskerameistari, kom með menninguna í líf mitt þegar hann kvæntist móður minni. Þá var ég fimm ára. Hann kom með urmul bóka af öllu tagi, skáldsögur, ævisögur og ljóðabækur. Allar þessar bækur urðu mér, barninu, óendanleg freisting og flýttu mjög fyrir því að næði tökum á listinni að lesa. Ég man að fyrstu tvær bækurnar sem ég las voru Móðirin eftir Maxim Gorki og Æskuár mín á Grænlandi eftir Peter Freucen. Skildi örugglega ekki allt en gat alltaf spurt. Ljóðskáldin voru þarna flest; Tómas, Steinn og Jónas.

Grammifónninn kom líka með mörgum 78 snúninga plötum, mest klassísk tónlis; Beethoven, Dvorak og aðrir meistarar. Ég man hann ýmist hallandi sér aftur í sófanum og hlusta með lokuð augu á verkin á hæsta styrk. Sveiflaði höndum eins og hann stjórnaði þessu öllu. Eða lá á bakinu á gólfinu; maður sá næstum tónana fara inn um eyrun, um líkamann og út í alla limi. Nautnin var algjör.
Nú er hann farinn, níræður að aldri, farinn heilsu og kröftum. Ekkert eftir nema kveðja. Blessuð sé minning Haraldar Arnar Sigurðssonar.

 

20.09.2014 16:26

Vangaveltur við ferðarlok

Hvað situr eftir þegar lokið er tveggja vikna ferð um land, sem maður þekkti alls ekki fyrir, með hópi fólks sem maður þekkti ekki nema að litlum hluta til fyrir ferðina?

Þegar ég lít til baka yfir vikurnar tvær frá 3. september sl. er það einkum fernt sem mér er minnisstæðast. Landið, sagan, menningin og ekki síst fólkið sem við ferðafélagarnir kynntumst, almenningur.

 

Landið

Ég hafði vissulega nokkra hugmynd um að í Íran væri gnótt sands og víðfeðmar eyðimerkur, en ég vissi ekki að það væri svo fjöllum skrýtt sem það er. Og það af fjöllunum sem við sáum nakin, sendin og klettótt. En inn á milli fjallgarðanna voru mörg iðagræn svæði þar sem ræktað var grænmeti. Hvernig mátti það vera, svona inni í eyðimörkinni? Svarið kom ekki bara mér á óvart. Undir eyðimerkum landsins – á nokkurra metra dýpi – liggur þúsunda kílómetra kerfi ganga sem safna vatni sem myndast í sandinum. Þetta vatn er notað fyrir heimilin og til ræktunar. Þetta kerfi er ævafornt, frá því löngu áður en verkfræðin var fundin upp sem fag. Lýsingin á því, hvernig það var lagt sýndi að hugvitið er ekki nýtt hjá mannskepnunni; þrjár ljóstýrur notaðar til að marka beina línu ganganna, einföld hallamál til að ná hæfilegum vatnshalla. Áherslan á vatn og gróður til að auðga mannlífið er mjög áberandi; mikið af almenningsgörðum þar sem börnin busla í manngerðum lækjum, sama um hallargarða sem opnir eru almenningi, þar leikur vatnið veigamikið hlutverk, sem vettvangur leikja og lífgjafi grass, blóma og trjáa.

Landið kom mér skemmtilega á óvart.

 

Sagan

 

 

Í Íran er sagan við hvert fótmál og það er hlúð að henni, henni gert hátt undir höfði. Þar sem við komum var víða verið að endurbæta og vinna að viðhaldi. Fagrar moskur, vatnstankar, ísgerðarhús, gamlar hallir og gömul hús, heilu bæjarhverfin. Byggt upp og gert nothæft. Veitir vissulega ekki af sums staðar. Íranir eru stoltir af sögu sinni og  hampa henni óspart. Án tillits til hverjir fóru með stjórn landsins hverju sinni. Þannig er glæsilegt glerlistasafn sem stofnað var til fyrir tilstilli keisaraynjunnar Farah Dibu notað sem dæmi um þróun glerlistar í aldanna rás, á sama hátt og fornar moskur eru dæmi um áherslur einstakra [jafnvel fámennra] hópa. Ýmsar hallir, opinberar eða í einkaeigu áður fyrr eru sýndar með stolti sem partur af sögunni. Og það er svo sannarlega ástæða til stoltsins.

Djásnið í sögunni er líklega Persepolis, Borg Persanna. Þar hefur mikið verið grafið upp og lagfært og enn verið að. Necropolis, Borg hinna dauðu, er annað dæmi. Í Pasargad er verið að byrja að endurbyggja umhverfi grafhýsis Kýrusar fyrsta Persakonungs. Svo mætti lengi telja.

Sagan kom mér ekki á óvart en áherslan á hana gladdi mig

 

Menningin

 

 

Eiginlega er menningin samofin sögunni og því ástæðulaust að hafa sérstakan undirkarfla um hana. Persepolis er auðvitað hluti af menningunni, dittó Necropolis, moskurnar allar og hallirnar. Byggingarlistin. En ekki síst vatnið og gróðurinn; hugmyndafræði umhverfisins, þar sem lögð er áhersla á tengsl manns og náttúru.

Trúin er stór þáttur menningarinnar og þróunar hennar; trúarbrögð hafa alltaf skipt máli. Zorostrianar með trú sína á höfuðöflin fjögur og árstíðirnar og tengsl manns og náttúru, islam með prédikun um frið og leyfi allra til að tilbiðja sinn guð í friði. Því eru hér gyðingar, kristnir og fleiri hópar sem lifa í friði með múslimskum nágrönnum sínum og vinum.

Perzman leiðsögumaður ræddi við okkur og útskýrði trúmál og skiptingu Islam í fylkingar sem ekki geta á sátts höfði setið. Stutta útgáfan er sú að Súnní múslimar séu harðari á bókstafnum og vilji engri túlkum breyta þótt bæði samfélög og tíðarandi breytist. Shia múslimar eigi aftur á móti auðveldara með að laga kennisetningarnar að samfélaginu, breytast með tíðarandanum og vitna í því til ummæla í Kóraninum. Í Íran ríkja shia múslimar og þar gerast breytingar, en afar hægt og rólega, enda hafa menn ekki trú á byltingu í þessum efnum. Slæðan er gott dæmi. Hún er skylduhöfuðfat en virðist notuð á afar mismunandi hátt, mismunandi frjálslega getum við sagt.

Ekki má gleyma bókmenntunum. Íranir hampa sínum höfundum, ekki síst ljóðskáldum. Þar eru einkum tvö höfð í sérstökum hávegum, súfistinn Hafez og svo Saadis, minnismerki um báða eru í Sjiraz. Verk þeirra eru í misjöfnum „stíl“ ef svo má segja, en ég fer ekki nánar út í þá skilgreiningu. Einn ferðafélaganna var afar ósáttur yfir því að uppáhaldinu hans, Omari Khayam, skyldi ekki vera gert hærra undir höfði í Íran; hann komst ekki einu sinni inn á top 20, þegar fjallað var um höfuðskáldin.


Mannfólkið

 

 

Kannski var það viðmót almennings sem kom mér mest á óvart. Það byrjaði strax í biðsalnum á flugvellinum í Frankfurt, þegar eldri kona tók okkur Jónas Kristjánsson tali og spurði á bjagaðri ensku hvort við værum að fara til Teheran. Þegar við jánkuðum því spurði hún hvaðan við værum, en áttaði sig ekki alveg á því hvað eða hvar þetta Ísland væri, ekki Iceland heldur. Svo hún leitaði til landa sinna sem sátu þarna hjá og spurði, sem fjölgaði viðmælendum í eina fimm. Þegar þeim hafði skilist hvar þetta Ísland væri, þarna langt uppfrá hjá Norðurpólnum næstum því, setti það upp undrunarsvip: Hvað var fólk þarna norðanfrá að vilja til Íran? Kynnast landinu, menningunni, sögðum við, og fólkinu. Það fannst þeim frábært. Íranir eru nefnilega engin fífl, eins og Jóhanna fararstjóri orðaði það einhvern tíma, þeir vita alveg hvernig talað er um landið þeirra og þjóðina í erlendum fjölmiðlum. Þess vegna fagna þeir hverjum útlendingi og vilja allt fyrir hann gera.

Það var skemmtilegt að ganga um götur og torg og garða. Alltaf voru þar einhverjir sem vildu spjalla. Gengu að manni, svolítið feimnislegir sumir og buðu mann velkomin til Íran og vildu fá að spjalla. Báðu gjarnan um leyfi til að vera með á mynd, sem þá var tekin á síma viðkomandi eða smámyndavél. Brosandi út í bæði. Tvær unglingsstúlkur komu til mín í garði og báðust afsökunar á framhleypninni, en „af hveru er þessu mynd á handleggnum á þér“. Þetta tattú er liðlega fimmtíu ára gamalt og farið að verða ansi dauft og upplitað. Ég útskýrði myndina; þetta er seglskúta, hér er sjórinn, þetta er skipið og hér þanin seglin, fuglar fljúga um í sólroðanum. Þær ljómuðu, já seglskip. Þegar ég sagði þeim að myndin væri svona dauf vegna þess að það væru liðlega fimmtíu ár síðan hún var sett á mig fórnuðu þær höndum; fimmtíu ár! Það hefur sennilega verið áður en foreldrar þeirra fæddust.

Það var veifað til okkar úr strætisvögnum og bílum og i det hele tatt var tilfinningin sú að við værum svo sannarlega velkomin í þessu landi.

Annað sem vakti mikla athygli var samkennd fjölskyldunnar, stórfjölskyldunnar. Hvert sem við fórum sáum við fjölskyldur í „pikknikk“; þrír ættliðir komu með mat, breiddu teppi á jörðina, elduðu matinn og sátu svo og spjölluðu saman, fengu sér jafnvel í vatnspípu meðan börnin léku sér. Annað sem vakti ekki síst athygli kvennanna í hópnum var hve karlmennirnir virtust vera mikið með börnin. Þeir héldu gjarnan á þeim á götum úti, léku sér mikið með þeim; tóku að því er virtist virkan þátt í uppeldinu.

Þetta eru vangaveltur í ferðarlok. Þá er eiginlega aðeins eftir að þakka fyrir sig. Hópurinn, 28 manns, var mér að mestu ókunnugur fyrir ferðina. Á kynningarfundi kom í ljós að ég gat með góðu móti sagt að ég þekkti tvo, kannaðist við aðra tvo og þar með búið. Ég vissi því lítið með hverjum ég var að fara í ferðalag. Skemmst er frá því að segja að þessi hópur mismunandi fólks á mestöllum aldri small saman. Gamansemi og skemmtilegheit voru allsráðandi og þyrfti einhver aðstoðar við fékk hann hana umyrðalaust. Fararstjórinn, hún Jóhanna Kristjóns réði þar miklu um og ekki síður leiðsögumaðurinn Pezhman Azizi, hafsjór fróðleiks á öllum sviðum.

Takk fyrir mig öll sömul, þetta var hreint frábært.

17.09.2014 14:27

Allra síðasti dagurinn í Teheran - og Íran

 
 

Dagurinn byrjaði laglega með bjartviðri yfir borginni; ekkert nýtt í því. Við fórum undir verndarvæng Atefeh Fateh leiðsögumanns, þar sem Perman var farinn til annars hóps. Fyrst fórum við að skoða heimili Khomenis erkiklerks, en það hefur verið gert að safni. Afskaplega „rólegt“ safn, engin helgislepja eins og ég hafði búist við. Ekki er hleypt inn á heimilið, heldur verða gestir að skoða það inn um glugga. Aftur á móti gátum við farið í salinn þar sem hann ávarpaði fylgismenn sína og lítilsháttar safn í kjallaranum. Atefeh tók mynd af hópnum fyrir framan mynd af erkiklerkinum.

Þá var farið í glerlistasafn sem fyrrum keisarynja Farah Diba beitti sér fyrir. Þar eru glæsileg verk frá ýmsum tímum og mörgum löndum og uppsetningin eiginlega listaverk út af fyrir sig.

Þá var kominn tími á kaffihús áður en farið var á hótelið, sem ekki var hlaupið að. Umferðin í Teheran á álagstíma eru lyginni líkust; það eru áreiðanlega einhverjar reglur í gildi, skráðar eða óskráðar. A.m.k. sér maður varla skrámaðan bíl. En aðkomumenn eins og við áttum erfitt með að skynja sístemið í galskapnum. Það tók hátt á annan klukkutíma að komast úr miðbæ í úthverfið þar sem Hótel Azadi er. En Teheran er reyndar sautján milljóna íbúa borg og víðáttumikil eftir því.

Á eftir er það svo kvöldverður. Smáblundur áður en við leggjum af stað út á flugvöll laust eftir miðnætti. Á loft frá Teheran kl. 03:55 til Vínarborgar, þaðan til Frankfurt og heimkoma er áætluð á fjórða tímanum eftir hádegi á morgun. Hætt við að einhverjir verði slæptir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

16.09.2014 17:52

Síðasti dagur - sumra - í Teheran

Þetta átti að vera síðasti dagurinn í Teheran í þessari ferð og er það fyrir helminginn af hópnum. Vegna mistaka í bókun hjá Icelandair þarf hinn helmingurinn að vera sólarhringnum lengur.

En þetta var fínn dagur, eins og reyndar þeir sem á undan eru gengnir hér í Íran. Við sváfum frameftir, fórum ekki fyrr en klukkan tíu af stað úr lobbíinu fína og þá sem leið lá í Þjóðminjasafnið. Þar er margt skemmtlegt og fróðlegt að sjá eins og gefur að skilja í landi þar sem saga og menning eru allt um kring. Við tókum – eða fengum mann til að taka – mynd af hópnum. Ansi glæsilegur hópur. [Sjá neðst.]

Hádegisverðinn snæddum við í vinsælu veitingahúsi þar sem þægilegasti kvartett sá um notalega dinnermúsik. En svo kom söngvarinn.

Á leiðinni til hótels og síestu ókum við framhjá fyrrum bandaríska sendiráðinu, sem nú hefur verið breytt í safn um byltinguna. Segiði svo að Íranir séu húmorslausir.

Ferðaskrifstofan sem sá um skipulag ferðarinnar innanlands bauð hópnum til kveðjukvöldverðar. Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá turninum sem upphaflega var reistur sem minnisvarði um íranskan arkitektúr og er auðvitað enn, en hann er í dag einnig tákn um klerkabyltinguna.

Ég notaði tækifærið og tók mynd af sem allra flestum ferðafélögum við kvöldverðarborðið, sem og fulltrúum ferðaskrifstofunnar. Stúlkan með bleiku slæðuna er sú sem ætlar að leiðsegja þeim hluta hópsins sem eftir verður á morgun.

Síðasta myndin í færslu dagsins er af hópnum öllum, tekin á tröppunum fyrir utan Þjóðminjasafnið.

Nú ætla ég að leggja mig og vera endurnærður þegar ég heimsæki heimili Khomenis í fyrramálið. Ég er nefnilega einn þeirra heppnu sem verða að vera sólarhring í viðbót í Teheran.

 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

 
 
 

 

 

 
 
 
 

 

 
 

 

 

 

 

15.09.2014 17:37

Aftur til Teheran

Við lögðum af stað frá Esfahan klukkan hálfníu í morgun og renndum upp að Hotel Azadi í Teheran liðlega átta í kvöld. Dagurinn var fyrir margt lýjandi, ekki síst þegar rútan okkar bilaði áður en við náðum til Kashkan. Þá vorum við stödd í námunda við úranvinnsluverksmiðju Írana og því bannað að taka myndir. Umferð var mikil eftir veginum í báðar áttir, fólksbílar og flutningatæki. 

Við snæddum hádegisverð, sem framreiddur var úti við í Fingörðunum. Þarna voru ótal stórfjölskyldur að gera slíkt hið sama; það er raunar einna athyglisverðast við íranskt samfélag, þessi mikla samkennd fjölskyldunnar og sá siður að borða úti við þegar því verður við komið. Þá kemur fjölskyldan með teppi og mat, eldar matinn á staðnum og neytir hans. Fá sér jafnvel í vatnspípu í afslöppuðu andrúmsloftinu. Og börnin leika sér.

Við skoðuðum eina höll áður en við fengum hádegismatinn, en síðan var haldið beina leið til Teheran.

 
 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

14.09.2014 18:36

Frjáls dagur, fáar myndir

Frelsi dagsins var notað til viðskipta. Flestir fóru á markaðinn við stóra torgið, þar á meðal þessi hér. Myndir af mörkuðum eru hver annarri likar og nennuleysi til slíkrar myndatöku réði því að fyrsta mynd dagsins var tekin á skemmtilegu litlu veitinga- og kaffihúsi á markaðssvæðinu. Þar löfðu alls kyns áhöld úr loftinu og skópu skemmtilega stemningu.

Síðara viðfangsefni dagins var tilraun til myndatöku á kvöldgöngu um garða og brýr og gekk misjafnlega. Lokaskotið var tilraun til umferðarmyndatöku og verður seint metið til viðurkenningar. Fær þó að fljóta með.

Árla í fyrramálið verður lagt af stað til Teheran, síðasta viðkomustaðar þessarar ferðar.

 

 

 

 

 

 

 

13.09.2014 18:08

Moskur, hallir og handverksmenn

Annar dagur í Esfahan; torgið stóra, ótrúlega fallegar moskur, fögur höll og önnur lúin, Armenska kirkjan og tveir frábærir veitingastaðir. Þetta er stutta útgáfan að viðbættum frumkvöðli prentverks í þessum heimshluta. Þeir sem þola ekki moskur og hallir eða sjálfhverfa bloggara geta því hætt hér.

Við sumsé byrjuðum daginn á torginu mikilfenglega með trjágróðri sínm og grasflötum og gosbrunni og hestakerrum í farþegaflutningum. Það er allt í lagi að geta þess að þetta svæði var pólóvöllur áður en því var breytt í þetta frábæra torg. Því til sönnunar eru marksúlurnar enn uppistandandi beggja vegna torgsins. Við skoðuðum Ali Qapu höllina sem stendur við torgið og fengum þaðan fínt útsýni yfir það.  [Ali=bestur, Qapu=hlið/dyr = Besta hliðið. Í rauninni er þetta sama nafnið og hin fræga Topkapi í Istanbul]. Þar vakti ekki síst athygli tónlistarsalur með undraverðan hljómburð. Frá Ali Qapu gengum við yfir í Imammoskuna, sem er hreinlega einstök í glæsileika sínum, innan sem utan. Hrifning mín á fallegum moskum fékk útrás, eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

Áður en við skruppum í armenska hverfið til að fá hádegisverð á armenskum veitingastað heimsóttum við dúkasala, sem prentar dúkana sína sjálfur með alls kyns mynstri, sem þrykkt er með „stimplum“ sem skornir eru út í tré. Sérlega áhugaverðir dúkar í ýmsum litbrigðum, þrátt fyrir aðferðina.

Frá veitingastaðnum armenska fórum við í Armensku kirkjuna og síðan í næsta hús í safn um sögu kirkjunnarar. Þar fylgir armensk bókaprentun [minnsta bókin á safninu er 0,7 gr. að þyngd, 14 blaðsíður] og þjóðarmorð Tyrkja á Armenum 1915. Í safninu eru gömul handrit, en einnig gömul handpressa og sýnishorn af lausaletri og prentuðum bókum. Handan götunnar er svo stytta af frumkvöðli prentverks í þessum heimshluta og þessi hér stóðst ekki freistinguna þegar myndataka stóð til boða. 

Síðasta höll dagsins var Hasht Behesht. Hún er eiginlega í niðurníðslu, en byrjað að endurbyggja hana. Til dæmis var ljósakróna sem dinglaði úr lofti forstofunnar þakin þykku lagi af ryki.  

Eftir síðdegishvíldina lauk svo deginum á frægasta veitingastað Esfahan, Shahrzad, sem nefndur er eftir sagnmeistaranum sem barg lífi sínu dag frá degi með sífellt nýrri sögu. Shahrzad er sem sagt konan sem sagði sögurnar sem þekktar eru í sögusafninu Þúsund og ein nótt. Veitingahúsið er skreytt minnum úr Þúsund og einni nótt, sérlega glæsilegt. Aðalrétturinn; lambakótilettur með hefðbundnum hrísgrjónum og grænmeti.

Á morgun er frjáls dagur og líklegt að flestir fari á markaðinn við torgið stóra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

12.09.2014 16:38

Esfahan, fyrsti dagur

Föstudagur í dag, helgidagur í þessu landi. Af því leiðir að flestar verslanir eru lokaðar, a.m.k. fyrir hádegi. Við byrjuðum á að fara í Fjörutíu súlna höllina, sem var opinber móttökusalur fyrir löngu. Í þá daga voru húsið og glæsilegur garðurinn speglum skreytt og móttökur ævinlega fyrir hádegi, þegar sólin skein á speglana og allt umhverfið glitraði birtu sólar. Eftir hádegið var sólin komin bak við höllina og ekkert skein eða glitraði; þá voru enga móttökur. Aðalsalur þessa móttökuhúss er skreyttur gömlum, stórum málverkum sem við vorum frædd um. Það verður að viðurkennast að nokkrar myndir með þessum pistli bera þess merki að vera teknar flasslaust við erfiðar aðstæður. Málverkin í móttökusalnum eru þar á meðal.

Þá lá leiðin til teppasalans Hossein og félaga, þar sem hann fræddi okkur um leyndardóma vefnaðarlistarinnar, sem eru reyndar býsna margir og flóknir. Teppi og teppi eru sumsé ekki það sama, – og kosta reyndar ekki það sama heldur. Þau voru mörg einstaklega falleg, af öllum stærðum og gerðum.

Imammoskan var lokuð ferðamönnum þegar við komum á stóra torgið, þar sem föstudagsbænir stóðu yfir. En við röltum um og skoðuðum torgið og basarinn sem þar er umhverfis áður en við fórum og snæddum hádegisverð á stórskemmtilegu veitingahúsi, sem reyndar er hluti af basarnum. Skoðum torg og basar betur á morgun.

Eftir matinn var miniatúr listamaðurinn Mustafa heimsóttur. Hann er með gallerí og vinnustofu sína og sonar síns rétt við stóra torgið og sýndi okkur list sína. Hann býr sjálfur til penslana sem hann notar til myndsksköpunar; þeir eru gerðir úr kattahárum, örfáum í hverjum pensli. Hann teiknaði eina mynd fyrir okkur og gaf hana elsta þátttakandanum.

Loks lá leiðin að einni af mörgum undurfögrum og mörghundruð ára gömlum brúm yfir Lífgjafarfljótið. Síðan eftirmiðdagshvíld og kvöldinu lauk á veitingasal Abbashi- hótelsins, utandyra, með enn einum dýrindis kvöldverðinum.

Hér eru nokkrar myndir í tímaröð:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 

 

 

 
 
 

12.09.2014 02:35

Leiðin til Esfahan

Leiðin til Esfahan í gær var slitin í sundur með nokkrum stuttum stoppum. Við kvöddum hótelið okkar, Moshir al Mamalek og ókum áleiðis til Esfahan. Stoppuðum þó til að skoða gamlan áningarstað fyrir úlfaldalestir fortíðarinnar, vefara og póstminjasafn, þar sem þeir hestamennirnir Jónas og Svavar hneyksluðust mjög á mélunum sem notuð höfðu verið á pósthestana. Svo var skutlast yfir götuna að skoða íshús áður en lagt var í eyðimörkina. 

Í steikjandi hitanum var gott að stansa við vegasjoppur og aðra staði sem gáfu tilefni til að teygja úr fótunum. Á einum áningastaðnum var falleg moska sem ástæða var til að mynda. Við skoðuðum op sem notuð höfðu verið til eftirlits með vatnsgöngunum: þeim var haldið opnum með nokkrum bíldekkjum sem komi var fyrir efst í opunum til að koma í veg fyrir að þau hryndu saman.

Eyðimerkur eru sannarlega auðn og tóm, en inn á milli eru minjar sem vert er að skoða, svo sem eins og moskan í Nair, sem er bæði ofanjarðar og neðan; notuð ofanjarðar ef veður [hitinn altso] er skaplegt en verði of heitt eða of kalt er messuhaldið flutt neðanjarðar, þar sem birtu er hleypt niður um alabastursglugga. Hitastigið neðanjarðar er í öfugu hlutfalli við hitastigið ofnjarðar; svalt í hitum, heitt þegar kólnar.

Síðasta mynd dagsins var tekin í lok dags, út um gluggann á sjöundu hæð Aseman hótelinu í Esfahan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

12.09.2014 01:25

Gönguferð um Jasd

Seinni daginn í borginni fór internetsambandið og þessi pistill er því aðeins of seinn. Jasd – eða Yazd – er myndræn borg og miðvikudagurinn 10. sept. fór í að skoða hana. Byrjuðum á Húsi eldsins, sem er safn um Zorostriana, þar sem hinum heilaga eldi er haldið lifandi. Vegna áherslu Zorostriana á varðveislu eldsins hafa þeir gjarnan verið sagðir eldsdýrkendu, en svo er þó ekki; eldurinn er eitt höfuðaflanna fjögura í þeirra trú og það þeirra sem erfiðast var að kveikja í upphafi og því var og er lögð mikil áhersla á að halda honum lifandi, sem í dag er táknrænt. Verndari eldsins sér um það.

Þröngar götur gamla bæjarins eru skemmtilegar og þar sáum við bæði kyngreinda gestakomu og tröppur niður í gamalt vatnsforðabúr. Kyngreining gestanna felst í því að ef karlmaður kemur í heimsókn ber hann að dyrum með dyrahamrinum vinstra megin en kona knýr dyra með hamrinum hægra megin. Mismunandi hljóð segja húsráðendum hvort eigi að fara til dyra; húsfreyjan fyrir gestkomandi konu, karlinn opnar fyrir kynbróður sínum.

Eftir að hafa prílað upp á þak og skoðað fjölbreytilegt útsýni skutumst við í mosku með viðkomu í nokkrum verslunum. Parsman útskýrði fyrir okkur siði og táknmál helgihalds í moskum, þar á meðal muninn á bænahaldi og prédikunum, þar sem Imaminn situr í sérstökum ræðustól meðan hann flytur föstudagshugvekjuna.

Vatnsminjasafnið var næst og þar fengum við útskýringar á ótrulegri tækni sem íbúar eyðimerkurinnar beittu þegar þeir hófu að grafa net neðanjarðarganga til að safna saman því vatni sem myndast langt undir eyðimörkinni. Það er reyndar hreint ótrúlegt afrek og unnið löngu áður en tæknifræðin var fundin upp.

Áður en en degi lauk litum við inn á æfingu hjá iðkendum Bastani, æfinga sem byggja á fornri aðferð til að halda hermönnum í góðu formi. Húsnæðið sem svona æfingar fara fram í nefnist Zurkhaneh og æfingarnar fara fram undir þungum trommuslætti og söng trommuslagarans, sem í þessu tiviki er Íransmeistari í trommuslætti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

09.09.2014 18:31

Um fjallaskörð til Jazd með viðkomu í Turni þagnarinnar

Þetta var dálítið langur dagur en skemmtilegur eins og endranær. Lögðum af stað frá Sjiraz snemma morguns og byrjuðum með heimsókn til grafhýsis Kýrusar, fyrsta konungs Persa. Svolítið svona Persepolis fyrir byrjendur, en nýfarið er að grafa upp af alvöru í Pasargad, þar sem grafhýsið er. Við skoðuum líka elsta sýprustré sem sögur fara af, 4600 ára segja rannsóknir. Ber aldurinn vel. Snæddum hádegisverð í garðinum hjá bónda sem ég man ekki hvað heitir, eins konar pikknikk undir heiðum himni. Sem er reyndar eini himininn sem við höfum kynnst í þessari ferð.Hundurinn á bænum fékk að sleikja leifarnar. Okkur var sagt að hitinn þá væri liðlega 40 gráður. Í tilefni af því fórum við og skoðuðum ísgerðarhús, þar sem menn nýta sér kuldann undir eyðimörkinni til að framleiða ís í stórri niðurgrafinni hvelfingu undir kúpli sem alveg má líkja við ístopp án brauðforms. Loks var farið að skoða Turn þagnarinnar, þar sem Zorostrianar lögðu hina látnu langt fram á sjötta áratug síðustu aldar, til að fuglar himinsins gætu etið hold hinna látnu. Síðan voru beinin grafin. Þetta var liður í trú Zorostriana, sem voru áhangendur Zaraþústra og trúðu á árstíðirnar fjórar og náttúruöflin fjögur, vatn, eld, vind og jörð.

Leiðin lá um mikla fjallgarða, þar sem vegastæðið fór hæst í 2600 metra hæð og klettabeltin æði stórbrotin.

Næstu tvær nætur gistum við á Moshir al Mamalek, dálítið sérstöku hóteli þar sem lækir liða um garða og tveir stórir páfagaukar sjá um leikhljóð hins daglega lífs.

Hér eru nokkrar myndir:

 

 

 

 

 

 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 
 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 872
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 111
Samtals flettingar: 486209
Samtals gestir: 65895
Tölur uppfærðar: 30.10.2024 18:21:27


Tenglar