Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


08.09.2014 17:58

Gröf Saadis, Kóranhliðið, Borg hinna dauðu og Borg Persa

Þetta var góður dagur. Hann byrjaði á heimsókn að gröf skáldmæringsins Saadir en þaðan var svo farið að Kóranhliðinu, sem fyrir ekki svo mjög löngu var aðalleiðin inn og út úr Shirazborg. Þaðan lá leiðin í hádegismat í afar vatnsmiklu veitingahúsi, sem framreiddi ákaflega góða máltíð handa okkur. Eftir matinn var farið að Borg hinna dauðu [Necropolis], þar sem fyrri alda kóngum voru gerðar grafir í fjall. Síðasta stopp í dag var svo Borg Persa [Persepolis]. Þetta var feiknalega mikið mannvirki sem þrjóturinn Alexander mikli brenndi og eyðilagði að mestu, að þeirra tíma sið sigurvegara. Stórmerkilegt, ekki síst í mínum huga fyrir að þarna eru miklar áletranir ritaðar með fleygletri.

Mér verður að fyrirgefast það að hafa ekki skrifað myndatexta, en það er vegna þess að ég geng frá þessum myndapistlun áður en ég geng til náða og hreinlega nenni ekki að skrifa meira en innganginn. Og það er líka rétt að taka fram að hér í Íran hefur mér ekki tekist að komast í samband við Facebook, og það sama gildir um aðra í hópnum. Hér eru nokkrar myndir:

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 

 

 

 

 

 
 
 
 

 

 
 
 

07.09.2014 19:10

Fyrsti dagur í Zhiraz

Þetta var ágætlega rólegur dagur; við fórum af hóteli hálftíu og heimsóttum Bleiku moskuna, basarinn og gamalt speglahús, fórum til grafhýsis persneska skáldsins og súfistans Hafez, sem er í miklum metum hjá írönsku þjóðinni. Eftir síestu fórum við aftur á basarinn (þar sem ég eyddi tímanum á tehúsi í góðum félagsskap) og síðan snæddum við kvöldverð á ágætu veitingahúsi. Góður matur og tónlistin áreiðanlega ágæt, en hentar illa fólki með heyrnartæki.

Hér eru nokkrar myndir:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

06.09.2014 18:57

Löng leið til Shiraz

Dagurinn í dag var langur og dálítið þreytandi. Ferðin frá Kerman til Shiraz er löng en var stytt með strekkingarpásum öðru hverju og smámáltíðum. Síðasta stopp fyrir hótel var saltvatn, þar sem saltið kemur upp úr jörðinni og er unnið þar fyrir neytendur. Slík vötn eru nokkur í landinu.

Hér eru nokkrar myndir:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

 

06.09.2014 02:11

Kerman og nærsveitir

Í gær, föstudag, var deginum varið í að heimsækja Rayen kastalavirkið, og nágrannabæinn Mahan, þar sem við skoðuðum ævagamalt baðhús. Síðan aftur til Kerman þar sem við röltum um markað og fengum okkur te í aflögðu baðhúsi sem breytt hafði verið í tehús. Kvöldverður var snæddur í veitingahúsi sem ég man ekki hvað heitir og kvöldið endaði með spjalli yfir te/kaffi og kökum áður en farið var til kojs. Nú er langur dagur framundan, aksturinn til Sjiraz, lengsta dagleið ferðarinnar.

Hér eru nokkrar myndir frá gærdeginum. Byrja á morgunbirtunni út um hótelgluggann og enda á Pezman fararstjóra reykja vatnspípu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

04.09.2014 06:17

Kominn til Teheran, loksins

Það rættist margra ára draumur þegar ég lenti ásamt öðrum í hópi Jóhönnu Kristjónsdóttur hér í Teheran, liðlega eitt að nóttu samkvæmt hérlendum tíma, liðlega níu að íslenskum. Ein úr hópnum varð eftir í Frankfurt þar sem þýskir neituðu að hleypa henni til Íran þar sem vegabréfið hennar átti að renna út fjórum mánuðum eftir að ferðinni á að ljúka. Skrítið, þar sem Írönum var slétt sama og þeir höfðu veitt henni nauðsynlega áritun. Hún reynir að leysa málin í samráði við ræðismann Íslands í Frankfurt og valdamenn hjá Lufthansa.

Útsýnið úr hótelglugganum; við komuna og aftur þegar birti af degi:

 

 

Næst á dagskrá er að skipta evrum og snæða hádegisverð, skoða þjóðminjasafnið og skreppa til teppasala. Síðan fljúgum við til Kerman, þaðan til Sjiraz, Jazd, Esfahan, þaðan sem við komum aftur til Teheran með viðkomu í Kashan.

01.06.2014 09:07

Umræðugrimmdin vakti upp samúðarfylgi

Þótt menn eigi örugglega erfitt með að viðurkenna það þá eru það sennilega þeir, sem mest hömuðust á Sveinbjörgu framsóknar og skoðunum hennar á múslimum og moskum, sem tryggðu Framsóknarflokknum þessi tvö sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. Þessi ofboðslegu og langdregnu viðbrögð kölluðu til samúðarfylgi frá ysta hægrinu og öfgamönnum í öðrum flokkum. Það kom best í ljós þegar Skúli Skúlason, tákngervingur hins fordómafyllsta í samfélaginu skoraði á skoðanabræður sína og -systur að þjappa sér um B-listann og þessa hugdjörfu konu.
Þetta þurfa menn að hafa í huga næst þegar svona kemur upp; gagnrýna málefnalega en ekki gefa svona þáttum alla umræðuna. Það vekur aðeins óverðskuldaða athygli og jafnvel [óverðskuldaða] samúð.

01.06.2014 09:00

Vonbrigði; nú reynir á

Ágætar fréttir og ekki síður ömurlegar sem maður fær að heiman. Framsókn hlær síðast og best og raunverulegur meirihluti fallinn. Samfó með „aðeins“ fimm fulltrúa og BF tvo. Nú er að mynda meirihluta með S, Æ, V og P; halda D og B frá meginstjórn. Leyfi mér að trúa því ekki að BF halli sér til ysta hægrisins og sé ekki hvernig Vinstri grænir eða Píratar gætu gert það, ekki síst í ljósi kosnigabaráttunnar.

22.01.2014 10:52

Hvers vegna þesa linkind?

Það liggur fyrir að Frosti Sigurjónsson hefur logið. Ekki bara að þingheimi heldur líka fjölmiðlum og þjóðinni allri. Og reynt að koma eigin eigin sök á aðra.
Það liggur fyrir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur blekkt þjóðina, lekið hæpnum persónuupplýsingum til Moggans og Fréttablaðsins til að skapa neikvætt umtal um einstakling sem beðið hafði um hæli hér á landi. Orðið margsaga og reynt að koma eigin sök á aðra. Reyndar er stjórnmálaferill Hönnu Birnu varðaður undirferli og baknagi, en það er önnur saga.
Hvernig stendur á því að stjórnarandstaðan lætur lítið sem ekkert í sér heyra? Hvernig stendur á því að sú krafa er ekki reist á Alþingi að þessi tvö segi af sér; hann sem þingmaður, hún sem ráðherra og þingmaður? 
Finnst fólki kannski þetta bara partur af leiknum?

13.06.2013 08:41

13.06.2013 08:25

Að snúa þróuninni við

Er það ekki í alvöru svolítið undarlegt að þegar sjálfstæðis- og framsóknarmenn komast til valda skuli fyrstu verk þeirra vera að stjórnmálavæða Ríkisútvarpið og velta fyrir sér að hætta við þátttöku ríkisins í tannlækningarkostnaði barna? Á sama tíma og lýst er yfir þeirri absolútu ákvörðun að lækka veiðileyfagjald um heildarupphæð sem myndi standa undir t.d. tannlæknakostnaðinum. Ríkisútvarpið hefur lengi farið í taugarnar á sjöllum, vegna ímyndaðrar vinstri slagsíðu (vinstri menn kvarta reyndar á sama tíma undan hægri slagsíðu). Með því að setja á ný í lög ákvæði um flokkspólitíska yfirstjórn er refsivendinum veifað … Gætið þess að segja frá því sem gerist í samfélaginu á réttan hátt … frá sjónarhóli ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis. Er mig að misminna; voru það ekki áreiðanlega hægri menn sem sífellt héldu því fram að þeir væru boðberar gegnsæis og frelsis fjölmiðla?

14.09.2012 13:33

Þau skulda okkur skýringar

Það er athyglisvert að í alþjóðlegri könnun Gallups kemur fram að 98% Íslendinga myndu kjósa Barak Obama til forsetaembættis BNA, hefðu þeir til þess tækifæri. Aðeins 2% segjast myndu kjósa Mitt Romney, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, til embættisins. Líklega er óhætt að taka undir það með Jóni Ormi Halldórssyni, dósent við HR, að þetta þýði ekki að Íslendingar séu sammála öllu í stefnu og stjórnarstörfum Obama, heldur miklu fremur að svo stór meirihluti þjóðarinnar sé andstæður þeim sjónarmiðum sem Mitt Romney er fulltrúi fyrir.
Þetta er ekki síst athyglisvert fyrir þá sök að a.m.k. tveir forystumenn Sjálfstæðisflokksins íslenska heimsóttu nýverið flokksþing Repúblikana í Flórída. Þau Bjarni Benediktsson formaður og Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýafsettur formaður þingflokks hans. Á þessu þingi var Mitt Romney endanlega kjörinn frambjóðandi flokksins og þar með málefnaskrá hans, sem einkennist aðallega af kröfum um niðurskurð í ríkisútgjöldum yfirleitt, en sér í lagi til heilbrigðismála og annarra velferðarmála. Tekið var fram í frétt að Ragnheiður Elín hefði tekið til máls á þessu þingi. Ekki hafa borist af því fréttir að hún hafi gagnrýnt málefnaskrá frambjóðandans eða þann málflutning sem gert hefur talsmenn flokksins að almennu aðhlátursefni hér á landi og víðar. Samanber varnarkerfi kvenlíkamans gegn sæði nauðgara.
Nú hljóta þessir tveir forystumenn Sjálfstæðisflokksins að skulda íslenskum kjósendum skýringar.
Hvað er það í stefnu og málflutningi bandarískra repúblíkana sem þau hrífast mest að? Hvaða stefnumál Mitts Romney eru það sem þau styðja? Hvaða stefnumál frambjóðandans og flokksins vilja þau bera fyrir íslenska kjósendur í komandi kosningum?
Svo er náttúrlega spurningin um hvernig á því getur staðið að íslenskir Sjálfstæðismenn halla sér fremur að Repúblíkanaflokknum bandaríska en Demókrataflokknum? Sem þó er kannski mun líkari hinum hefðbundna Sjálfstæðisflokki. 

24.01.2012 13:12

Ég gæti ekki verið með í þeim flokki

Það var svolítið dapurlegt að "verða fyrir" niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um að vísa frá tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Satt að segja fannst mér að í augum uppi lægi að vísa tillögunni frá; málið komið úr höndum Alþingis í hendur Landsdóms og hefur þar sinn gang. Ég var með sjálfum mér sannfærður um að tillagan yrði samþykkt og að mínir menn, þingmenn Samfylkingarinnar myndu tryggja það. Fannst auk þess að það ætti að vera betra fyrir fyrrum forsætisráðherra að klára málið fyrir Landsdómi, í stað þess að hafa það hangandi yfir sér það sem eftir lifir.

Ég hef fulla samúð með Geir H. Haarde; það er áreiðanlega erfitt að vera í hans sporum. Ég er líka á því, að sakborningar þessa máls ættu að vera fjórir, ekki einn; ákæra hefði átt alla þá fjóra sem lagt var til að kærðir yrðu. Eða engan. Þessi varð hins vegar niðurstaða Alþingis og við það verðum við að sætta okkur. Gefin hefur verið út ákæra, málið komið af stað og úr höndum Alþingis.

Niðurstaða Alþingis var sem sagt að fella frávísunartillöguna. Látum okkur hafa það, þótt fúlt sé; fram fer þá efnisleg umræða og síðan atkvæðagreiðsla.

Það er einmitt sú atkvæðagreiðsla sem ég kvíði nú, í ljósi þess að meirihluti þingmanna hefur ákveðið að taka tillögu Bjarna Benediktssonar til afgreiðslu, þar á meðal þingmenn og fyrrum ráðherrar Samfylkingarinnar, flokksins míns. Svo mjög sem mér sárnaði að þeir skyldu fella frávísunartillögu Magnúsar Orra og fleiri, þá myndi ég líta á það sem ófyrirgefanlega framkomu ef þeir greiða atkvæði með tillögu Bjarna Ben. Í mínum huga er það kristaltært að ef "mínir menn" verða til þess með atkvæði sínu að sú tillaga verði samþykkt, þá skilja leiðir.

Á sínum tíma kom ég talsvert nálægt stofnun Samfylkingarinnar; fyrst kosningabandalaginu sem Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn og Þjóðvaki mynduðu, síðan breytingunni yfir í formlegan stjórnmálaflokk. Sú vinna var hverrar mínútu virði og ég hef verið ánægður með niðurstöðuna. Ekki alltaf sammála öllum, skárra væri það nú í svona samsettum flokki, en ágætlega ánægður. Aldrei hvarflað að mér að kjósa eitthvað annað en Samfó í kosningum, hvort sem er í borgarstjórnar- eða þingkosningum. Er áreiðanlega óforbetranlega flokkshollur og foringjatrúr; legg jafnvel á mig hávaðarifrildi til að bera í bætifláka fyrir flokk og fulltrúa hans, friðsemdarmaðurinn ég.

Þessu tímabili ævi minnar líkur, ef og um leið og það liggur fyrir að atkvæði forystumanna í Samfylkingunni hafa orðið til þess að tillaga Bjarna Benediktssonar verði samþykkt á Alþingi. Ég er ekki mikið fyrir að taka upp í mig stóryrði á borð við svik þegar ég ræði um þingmennina mína, en í þetta sinn verð ég að gera það. Það væru fullkomin svik í mínum huga ef þessi staða kæmi upp. Ég gæti ekki - undir neinum kringumstæðum - verið í sama flokki og þeir. Ég segi mig úr honum samdægurs.

Þetta er ekki hótun, enda ég léttvægur í flokksstarfinu. Samfylkingin hvorki lifir né deyr þótt einn vesæll fótgönguliði stígi til hliðar. Þetta er miklu fremur yfirlýsing um pólitíska samvisku mína. Erfið í framsetningu, en nauðsynleg fyrir mig.

 

23.01.2012 12:57

Það má aldrei verða

Það mætti orða það þannig að réttarhöldin yfir Geir H. Haarde sé síðasta tækifærið til að leiða fram í dagsljósið ástæður hrunsins. Nákvæmlega þess vegna reyna nú Sjálfstæðismenn að koma í veg fyrir að þau fari fram. Til vitnis yrðu óhjákvæmilega kallaðir einstaklingar, sem áttu stóran þátt í því hvernig fór, ýmist með gjörðum sínum eða aðgerðarleysi.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var ekki síst studd til valda vegna þess að almenningur í landinu, þjóðin, vildi gera upp við hrunið, þær efnahagslegu hamfarir, sem hafa lagt líf fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna í fjötra sem ekki er sýnilegt að takist að leysa að fullu næsta áratuginn, a.m.k.
Takist Sjálfstæðisflokknum og öðrum hægri öflum landsins ætlunarverk sitt, að fá Alþingi til að falla frá kærunni á hendur Geir H. Haarde, tekst þeim jafnframt að koma í veg fyrir nauðsynlegt uppgjör. Það má aldrei verða. Það væri blaut tuska í andlit þess almennings í landinu, sem orðið hefur að bera stærstan hluta byrðanna undanfarin þrjú ár.

29.11.2011 09:39

- Dagur réttlæris á Alþingi

Í dag viðurkenna Íslendingar Palestínu sem fullvalda ríki. Þetta er því dagur réttlætis á Alþingi. Dagurinn þegar þingmenn lýsa yfir þeirri kröfu sinni að óréttlætinu ljúki, að íbúar Palestínu fái leyfi til að lifa lifinu án þeirrar þrúgandi kúgunar og þess skefjalausa ofbeldis sem þeir hafa mátt þola um áratuga skeið. Með samþykkt sinni í dag leggjum við, sem Íslendingar, lóð okkar á vogarskál réttlætisins.

Í umræðum á Alþingi í gærkvöldi voru fulltrúar allra flokka sammála um þetta mál, allir nema talsmaður Sjálfstæðisflokksins, þingflokksformaðurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir. Aðrir þingmenn tjáðu sig margir mjög tilfinningaþrungið vegna þess óréttlætis sem Palestínumenn hafa mátt búa við. Mögnuðust var þó ræða Amal Tamimi, ekki síst vegna þess að hún er eini þingmaðurinn sem reynt hefur hörmungar Palestínumanna á eigin skinni.

Samþykkt Alþingis í dag mun því miður ekki gera daglegt líf Palestínumanna auðveldara frá og með samþykktinni. En hún er yfirlýsing og hún er ákall til annarra þjóða að gera slíkt hið sama. Og hún mun styrkja málstað Palestínumanna. Össur utanríkisráðherra hefur verið óþreytandi að tala máli Palestínumanna á fundum og þingum. Framvegis getur hann fengið notað viðurkenningu Íslands á fullvalda Palestínu málstaðnum til framdráttar.

09.11.2011 09:05

Gríman féll

Svo skelfilegt sem það var að hlusta og horfa á Guðrúnu Ebbi lýsa ofbeldi föður síns fyrir Þórhalli í sjónvarpsviðtali, var það hreinlega sorglegt að hlýða og horfa á bróður hennar, sr. Skúla Ólafsson, í kastljósinu í fyrrakvöld. Þarna var allur pakkinn; umhyggja fyrir móður þeirra og miðsysturinni, ást á Guðrúnu Ebbu og staðhæfingin um að lýsing hennar á fjölskyldulífinu væri ekki í samræmi við það sem þau hin upplifðu. En auðvitað væri Guðrún ekki að skrökva; hún væri að lýsa ímyndaðri upplifun. Og sr. Skúli vitnaði í sálfræðinga máli sínu til stuðnings.

Hér er kannski rétt að hafa í huga að Skúli er tólf árum yngri en Guðrún Ebba. Hann upplifði því áreiðanlega ekki þessa tíma; hann var mestanpart ekki til, síðar svo ungur að hann hefur varla skynjað mikið af umhverfi sínu.

Reyndar verkaði sr. Skúli nánast einlægur í máli sínu þegar hann ræddi um þá skelfilegu upplifun sem hann, móðir hans og systir hefðu upplifað í framhaldi af uppljóstrunum Guðrúnar Ebbu. Hér skal svo sannarlega ekki reynt að gera lítið úr því. Til dæmis hlýtur líðan móður þeirra að hafa verið skelfileg í gegnum allt það fárviðri sem yfir fjölskylduna hefur dunið.

En gríman féll, þegar Sigmar spyrill spurði um þær konur aðrar sem ákærðu Ólaf Skúlason um kynferðislegt ofbeldi. Þá var reynt að gera lítið úr athæfi prestsins. Eiginlega skellt í góm. Hann hefði kannski verið kvensamur, en það hefði eiginlega ekki verið neitt alvarlegt; bara smásvona snerting. Sama með fermingartelpur.

Þarna, undir lok viðtalsins, féll gríman. Við strákarnir erum bara svona, smásvona snerting, ekkert alvarlegt eða til að hafa áhyggjur af.

Trúverðugleiki prestsins hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 528
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 466386
Samtals gestir: 63590
Tölur uppfærðar: 5.10.2024 16:41:18


Tenglar