Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


Færslur: 2010 Nóvember

23.11.2010 10:30

Að vekja ótta og vanmátt

Það er dálítið undarlegt hve sumir telja sér nauðsynlegt að tala kosninguna til Stjórnlagaþings niður. Reyna að koma fólki í skilning um að svo erfitt sé að kjósa og flókið, að það eiginlega borgi sig ekkert að vera að hafa fyrir því. Jafnvel prófessor við Háskóla Íslands telur sér sæma að vera með svona úrtölur í Kastljósi. Þetta hefur borið árangur, því miður. Ég hef tengsl við Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar á bæ, segir mér íbúi, er það almenn skoðun að ekki borgi sig að fara á kjörstað; þetta sé allt svo flókið og torskilið, að "við getum þetta ekki".

Þetta er þeim mun alvarlegra sem kosningin er afar einföld.

Hver er tilgangurinn með svona málflutningi? Hvað er svona hættulegt við það, að almenningur þessa lands kjósi sér fulltrúa til að gera drög að nýrri stjórnarskrá? Hverjum er gerður ógreiði með því?

Eru einhver öfl að reyna að vernda torfuna sína; forða því að pöpullinn sé að sletta skipta sér að því sem honum kemur ekki við?

Þetta ástand leiðir það hins vegar í ljós að einn er sá hópur sem hefur verið afskiptari en aðrir, þegar kemur að kynningu á framkvæmd kosninganna. Það er hópurinn sem ekki hefur aðgang að netinu. Eldri borgarar eru að megninu til hluti þessa hóps. Tæknin var einfaldlega ekki orðin sá hluti hversdagslífsins sem hann er í dag, þegar þetta fólk fór af vinnumarkaði; það hafði ekki lært að fóta sig í tölvuheimi og netsamskiptum.

Þess vegna hefði kannski þurft að haga kynningarmálum vegna kosninganna með ítarlegri og betri hætti gagnvart elstu kynslóðinni.

Sem breytir ekki því, að kosningarnar eru auðveldar í framkvæmd og ástæðulaust að ala á ótta við eitthvað annað.

21.11.2010 09:15

Spurt og svarað í útvarpi

Ríkisútvarpið, hljóðvarp, hefur ákveðið að spyrja alla frambjóðendur til Stjórnlagaþings þriggja meginspurninga, um afstöðu þeirra. Þessi viðtöl eru tekin upp og verður síðan útvarpað í belg og biðu frá og með mánudagskvöldi 22. nóvember. Hver frambjóðandi fær 5 mínútur í mesta lagi.

Ég fór í upptöku í gær og það var reyndar ansi skemmtileg reynsla. Níu frambjóðendur í hópi og rætt við hvern og einn sérstaklega, án þess að hinir blönduðu sér í málið. Þetta var reyndar mjög þægilegt og afslappað fyrirkomulag.

Hér á eftir fara spurningarnar og svör mín við þeim. Svörin eru í punktum, ætluð til að styðjast við og komust efnislega öll til skila, þótt ég stytti mér leið sums staðar vegna tímarammans.

1. Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

Já, það þarf að breyta stjórnarskránni til samræmis við það samfélag sem við búum í og viljum búa í.
Þessi tímapunktur er mjög heppilegur til slíkra breytinga.
Aðstæður í samfélaginu eru þannig að sennilega hefur sjálfsmat þjóðarinnar aldrei verið lakara.
Almenningur í landinu er reiður út í fortíðina, fullur tortryggni út í nútíðina og hræðist framtíðina.
Allt þetta vegna aðstæðna sem skapast hafa vegna ævintýramennsku nokkurra einstaklinga, en sem hin venjulegu Jón og Gunna báru enga sök á eða gátu á nokkurn hátt haft áhrif á.
Þess vegna tel ég nauðsynlegt að breyta þeim ramma um lagalegt umhverfi sem stjórnarskráin er.
Gerð nýrrar stjórnarskrár gæti verið fyrsta skrefið í áttina að nýju opnara og réttlátara samfélagi, sem kastaði ekki fyrir róða hagsmunum almennings til hagsbóta fyrir örfáa efnamenn.

2. Hverju þarf helst að breyta?

Þar má ýmislegt tína til. Sum atriði eru ofar í huganum en önnur, eins og gengur.
Þar er efst í huga umgengni og nýting auðlindanna. Þar trónar auðvitað efst nýting þeirrar auðlindar sem er fiskurinn í sjónum.
En einnig hlýtur að koma þar inn nýting jarðhita og þeirra auðlinda annarra sem felast í íslenskri náttúru, ofanjarðar jafnt sem neðanjarðar.
Því er gjarnan haldið fram að fiskurinn í sjónum sé auðlind í eigu þjóðarinnar. Almenningi er hins vegar misboðið vegna þess hve augljóst óréttlætið er í nýtingu hennar. Þar hefur örfáum einstaklingum nánast verið veitt eignarheimild á fiskinum í sjónum. Þessi þjóðareign er færð til eignar í bókhaldi útgerðarfyrirtækja. Lagaramminn stjórnarskrá verður að taka á þessu óréttlæti.
Annar þáttur er skarpari skil löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Ég hef undanfarin ár verið að komast á þá skoðun að ráðherrar eigi ekki að gegna þingmennsku.
Þessi þróun á raunar rætur í kennslunni hjá mér. Í fjölmiðlafræði ræði ég við nemendur um ýmsa þætti stjórnarskrárinnar, svo sem þrískiptingu valdsins og 73. greinina um tjáningarfrelsi og þá ábyrgð sem því fylgir.
Í umræðunum um þrískiptinguna hef ég smám saman verið að þróast frá því að hafa svo sem engar áhyggjur af málinu yfir í að sannfærast um að það sé óheppilegt að ráðherrar gegni einnig þingmennsku.
Þriðja atriðið er hlutverk forseta lýðveldisins. Af 81 grein stjórnarskrárinnar fjalla 28 um embætti forseta Íslands.
Langstærstur hluti þessara greina eru orðin tóm, hafa ekkert gildi í því þingræði sem við búum við og viljum búa við. Ný skilgreining á hlutverki þjóðhöfðingjans verður því að fara fram.
Sú hugmynd hefur skotið upp kollnum, að forsætisráðherra eða jafnvel forseti Alþingis eigi einnig að gegna stöðu forseta lýðveldisins. Þetta er fráleit hugmynd. Með því væri verið að dubba upp í þjóðhöfðingja einhvern einstaklings sem aðeins var til þess kjörinn að sitja á þingi, en ekki verða þjóðhöfðingi.
Þessi umræða smitast ansi mikið af pirringi vegna afskipta núverandi forseta af lagasetningum, þegar hann beitti þeim rétti sem honum er veittur í 26. grein stjórnarskrárinnar, að vísa ákvörðun Alþingis til þjóðaratkvæðis.
Hér verða menn hins vegar að geta skilið á milli málefnis og persóna.
Ég er á þeirri skoðun að þjóðin eigi að kjósa sér þjóðhöfðingja.
Fjórða atriðið er samband ríkis og kirkju. Þar tel ég að enginn trúarhópur eða kirkjustofnun eigi að hafa stöðu sem kirkja þjóðarinnar. Þessi afstaða byggist hvorki á andúð á guðstrú eða trúarstarfi. Það er einfaldlega mín einlæg skoðun að allir trúar- og lífssýnarhópar eigi að standa jafnfætis í samfélaginu. Ég trúi að slíkt skipulag myndi byggja upp meiri skilning og umburðarlyndi í samfélaginu. Sumir myndu segja að ekki veitti nú af.


3. Hver vegna gefur þú kost á þér?

Að skapa nýja stjórnarskrá er ákaflega merkilegt og vandasamt verk, og heillandi að geta fengið að taka þátt í því.
Ég hef á ævinni tekið þátt í lífi og átt samskipti við fólk á flestum þrepum samfélagsins. Fari svo að ég verði kjörinn á Stjórnlagaþing er ég sannfærður um að sú reynsla og þekking og sá þroski sem ég hef öðlast í starfi hér á landi og erlendis geri mig hæfan til að gegna starfinu með sóma.
  

15.11.2010 11:59

Forsetaembættið

Embætti forseta lýðveldisins er fyrirferðarmikið í stjórnarskránni, 28 greinar af 81. Það er 2. kafli stjórnarskrárinnar sem fjallar um þetta æðsta embætti þjóðarinnar.
Því er stundum haldið fram að embætti forsetans sé i raun ekki annað en konungshlutverk í nýjum búningi. Þegar annar kaflinn er lesinn er varla hægt að komast hjá því að samþykkja það. Stór hluti kaflans er um þætti embættisins, sem sjaldan ef nokkru sinni hefur verið farið eftir. Eða reynt hefur á. Þetta rennir stoðum undir það, að íslenska stjórnarskráin sé í raun sú danska, stílfærð. Þar sem áður stóð konungur standi nú forseti.
Í reynd hefur embættið meira verið tákn en valdaembætti. Forsetinn hefur vissulega völd samkvæmt stjórnarskrá, en vegna þess munar sem er á konungsveldi og lýðræði kæmi aldrei til álita að forsetinn beitti stjórnarskrárlegum rétti til fulls. Hér má nefna heimild til að fresta fundum Alþingis eða til að flytja embættismenn milli starfa.
Í reynd hefur embættið þróast þannig að forseti framkvæmir það sem ríkisstjórn felur honum að gera. Undirritar lög og tilskipanir. Þegar undan er skilin 26. greinin (um málskotsréttinn) er fátt um greinar sem fjalla um frumkvæði forsetans í óþökk sitjandi ríkisstjórnar.
Þegar þetta hefur verið lesið er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að ég vilji leggja forsetaembættið niður, þar sé gagnslaust. Það er hins vegar röng niðurstaða.
Þær hugmyndir hafa komið upp, að breyta forsetaembættinu í þá veru að forsætisráðherra eða forseti Alþingis gegni hlutverki forseta Íslands. Þá eru menn í raun að leggja til að forsetaembættið verði lagt niður. Embætti þjóðhöfðingja verði lagt niður en alþingismaður dubbaður upp í að verða forseti lýðveldisins. Þetta er vond hugmynd, sem mér reyndar finnst að sé runnin undan þeirri áráttu að geta ekki slitið í sundur málefni og persónur. Þessi afstaða á sér beina tengingu við þá staðreynd að forseti hefur í tvígang hafnað því að staðfesta lög og skotið þeim til þjóðarinnar.
Svo því sé til haga haldið, þá fagnaði ég fyrra tilfellinu (fjölmiðlafrumvarpinu) og brást reiður við í seinna skiptið (IceSave). Það fyrra varð þó ekki til að ég legði sérstaka ást á forsetann, né heldur lagði ég á hann sérstaka fæð í seinna skiptið. Hér var einfaldlega um rétt forsetans að ræða og hann taldi í bæði skiptin rétt að nýta sér hann, örugglega til hagsbóta fyrir þjóðina að hans mati.
Ég er sem sagt hlynntur embætti þjóðkjörins þjóðhöfðingja. Ég er jafnframt sannfærður um að hann verður að vera kjörinn af meirihluta þjóðarinnar. Sem þýðir að sé um fleiri frambjóðendur en tvo að ræða verður að fara fram kosnin milli tveggja efstu frambjóðendanna. Þannig verður kjörinn þjóðhöfðingi alltaf með meirihluta kjósenda á bak við sig. Sem er örugglega mikilvægt fyrir báða aðila; þjóðina og þann sem kjörinn er.
Stór hluti þeirra ákvæða sem fjallað er um sem hluta af embætisfærslu forsetans eru orðin tóm. Þau á að grisja hressilega á Stjórnlagaþingi, þannig að embættið sé í takt við það samfélag sem við búum í.

15.11.2010 10:11

Fjölmiðlar og stjórnlagaþing

Undanfarna tvo daga hef ég verið að fá mikinn póst frá frambjóðendum til Stjórnlagaþings. Menn eru þar skemmtilega duglegir að tala saman, mestanpart þó um eitt meginatriði; áhugaleysi fjölmiðla gagnvart kosningum til stjórnlagaþings. Öll höfum við fengið tilboð frá hinum og þessum fjölmiðlum og tengslafyrirtækjum og kynningarfyrirtækjum sem vilja allt fyrr okkur gera fyrir misjafnlega margar tugþúsundir króna. RÚV bauð mér t.d. pakka upp á liðlega 150.000 krónur. Þetta er sameiginleg reynsla.
Sjálfur tók ég þann pól í hæð strax í upphafi að ég ætlaði ekki að verja til þessa framboðs neinu sem næmi. Eins litlu og hægt væri að komast af með. Ástæðurnar eru tvær; í fyrsta lagi eru peningar takmörkuð auðlind á heimilinu og í annan stað lít ég svo á að Stjórnlagaþing eigi að vera fyrsta skrefiðí átt frá því samfélagi, þar sem menn gátu/geta keypt sér áhrif í stofnunum samfélagsins; sveitarstjórnum og/eða Alþingi. Ég hef að vísu keypt mér litlar auglýsingar á Fébókinni, svona fyrirbæri sem eiga að droppa upp einstaka sinnum. Hef að vísu aldrei séð þær, en frétt af þeim. Þær koma til með að kosta um 5.000 krónur.
Fram hefur komið hugmynd um sameiginlegan vettvang allra þeirra frambjóðenda sem myndu vilja vera með í slíku átaki. Eiginlega má líta á það sem örþrifaráð frambjóðenda; þeim er nauðsynlegt að koma sér á framfæri, en þessir venjulegu fjölmiðlar virðast þeim lokaðir. Ég hef lýst mig áhugasaman um að koma að slíku verkefni.

11.11.2010 20:33

Svör við spurningum frá kjósanda

Mér barst áðan bréf frá kjósanda, með sjö spurningum um afstöðu mína til nokkurra mála. Bréfið ásamt spurningum og svörum var svohljóðandi:

Þegar kosið verður til stjórnlagaþings þarf að velja úr frambjóðendum. Til þess að geta það þarf ég að vita afstöðu þeirra til ýmissa ágreiningsmála. Þessvegna bið ég þig að eyða þeim af orðunum Já Hlutlaus Nei hér fyrir neðan sem ekki eiga við, og endursenda síðan skjátuna.

1) Viltu að landið sé eitt kjördæmi? Já Hlutlaus Nei -- Svar:

2) Viltu að ríkið veiti einu trúfélagi forréttindi umfram önnur? Já Hlutlaus Nei -- Svar: Nei

3) Viltu að almenningur eigi allar náttúruauðlindir og njóti arðs af þeim? Já Hlutlaus Nei -- Svar: 

4) Viltu að vernd umhverfis og náttúru verði höfð að leiðarljósi við allar framkvæmdir? Já Hlutlaus Nei - Svar: Í meginatriðum já. Þetta er hins vegar spurning sem eiginlega er ekki hægt að svara með absolútu jái eða neii. Eða hlutleysi. Spurningin er of skilyrðislaus.

5) Viltu að öll orkufyrirtæki séu í eigu almennings? Já Hlutlaus Nei - Svar: Hér gildir sami fyrirvari og í spurningu 4. Þessu verður ekki svarað með absolútu jái eða neii. Eða hlutleysi. Spurningin er of skilyrðislaus.

6) Viltu að Ísland verði áfram aðili að Atlandshafsbandalaginu? Já Hlutlaus Nei -- Svar: Nei

7) Viltu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu náist hagstæðir samningar? Já Hlutlaus Nei -- Svar: 


10.11.2010 20:58

Tengsl ríkis og kirkju

Í dag fékk ég tvær spurningar frá Biskupsstofu. Þær voru raunar senda öllum frambjóðendum til Stjórnarskrárþings. Hljóðuðu svo:

"Biskupsstofa fer þess visamlegast á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum." 
1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig? 
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?"


Von að spurt sé, svo mjög sem þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið í umræðunni undanfarin misseri.

Mitt svar við fyrri spurningunni er ekki flókið. Ég tel ekki að neinn einn trúarhópur eða kirkjustofnun eigi að hafa stöðu kirkju þjóðarinnar. Í þessu felst hvorki andúð á guðstrú eða trúarstarfi, þótt sjálfur sinni ég hvorugu nema þegar skyldan knýr mig til. Það er mín einlæg skoðun að allir trúar- og lífssýnarhópar eigi að standa jafnfætis í þjóðfélaginu og þeir eigi að starfa fyrir það fé sem þeir geta aflað sér meðal félagsmanna sinna eða áhangenda.

Seinni spurningunni kom mér aftur á móti í bobba. Ég hef hreinlega ekki svo ítarlega þekkingu á sambandi ríkis og þjóðkirkju að ég geti myndað mér vitræna afstöðu til hennar. Nema auðvitað að ég vil ekki að fyrirbærið þjóðkirkja sé til staðar. En samband ríkis og þjóðkirkju er mun flóknara en svo að það snúist bara um þjóðkirkjuna sem slíka.

07.11.2010 18:51

Skref í átt að Stjórnlagaþingi

Í dag voru kynntar þær tillögur sem Þjóðfundur helgarinnar leggur fyrir Stjórnlagaþing. Það sem ég hef séð gefur til kynna að áherslan sé á breytt samfélag; breyttar áherslur, breytt vægi einstakra þátta samfélagsins. 
Samkvæmt fréttum er í tillögum Þjóðfundarins lögð áhersla á að stjórnarskráin eigi að vera sáttmáli sem tryggi fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og sé skrifuð fyrir fólkið í landinu. Hún eigi að standa vörð um íslenska tungu og menningu, sem og auðlindir þjóðarinnar. Jafnfram eigi hún að stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga.
Niðurstöðum þjóðfundarns er skipt í átta efnisflokka: "Land og þjóð", "siðgæði, mannréttindi"; "réttlæti", "velferð og jöfnuður", "náttúra Íslands, vernd og nýting", "lýðræði, valddreifing", ábyrgð og gagnsæi", "friður og alþjóðasamvinna". 

Í fréttum sá ég ýmiss konar stikkorð, sem ég er svo hjartanlega sammála og myndi hafa mikinn áhuga á að vinna að á Stjórnlagaþingi. Þar má nefna að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, fjölmenningarsamfélagið, staða forsetaembættisins o. fl.

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 337
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 396318
Samtals gestir: 56366
Tölur uppfærðar: 14.7.2024 12:48:25


Tenglar