15.03.2011 09:43
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með Ragnari Önundarsyni gera sig að sífellt meiri kjána í fjölmiðlum síðustu daga. Frá því að sjónvarp RÚV ljóstraði því upp að hann hefði verið einn af gerendunum í kortamálinu mikla, hefur vegur þessa virta fjármálavitrings legið lóðbeint niður á við. Ekki aðeins vegna hans eigin þáttar í samráði kortafyrirtækjanna, heldur ekki síst vegna viðbragða hans. Sem eru fáránleg og ekki manninum sæmandi.
Eiginlega dæmdi hann sig úr leik í vitrænni umræðu þegar hann hélt því fram að hann væri ekki sekur í greiðslukortasamráðinu heldur bankarnir, Þeir ættu kortafyrirtækin; hann hefði aðeins verið að framkvæma stefnu þeirra. Hann lagði á ráðin, tók þátt í samsærinu, lagði til að menn eyddu netpóstinum til að ekki kæmist upp um þá. En bankarnir voru sekir, ekki hann. Hann var bara að vinna vinnuna sína. Svona málflutningur er auðvitað ekki sæmandi nokkrum manni, sem vill láta taka sig alvarlega. Og það vill Ragnar Önundarson örugglega.
Skrifað af Haukur Már Haraldsson