Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


Færslur: 2012 September

14.09.2012 13:33

Þau skulda okkur skýringar

Það er athyglisvert að í alþjóðlegri könnun Gallups kemur fram að 98% Íslendinga myndu kjósa Barak Obama til forsetaembættis BNA, hefðu þeir til þess tækifæri. Aðeins 2% segjast myndu kjósa Mitt Romney, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, til embættisins. Líklega er óhætt að taka undir það með Jóni Ormi Halldórssyni, dósent við HR, að þetta þýði ekki að Íslendingar séu sammála öllu í stefnu og stjórnarstörfum Obama, heldur miklu fremur að svo stór meirihluti þjóðarinnar sé andstæður þeim sjónarmiðum sem Mitt Romney er fulltrúi fyrir.
Þetta er ekki síst athyglisvert fyrir þá sök að a.m.k. tveir forystumenn Sjálfstæðisflokksins íslenska heimsóttu nýverið flokksþing Repúblikana í Flórída. Þau Bjarni Benediktsson formaður og Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýafsettur formaður þingflokks hans. Á þessu þingi var Mitt Romney endanlega kjörinn frambjóðandi flokksins og þar með málefnaskrá hans, sem einkennist aðallega af kröfum um niðurskurð í ríkisútgjöldum yfirleitt, en sér í lagi til heilbrigðismála og annarra velferðarmála. Tekið var fram í frétt að Ragnheiður Elín hefði tekið til máls á þessu þingi. Ekki hafa borist af því fréttir að hún hafi gagnrýnt málefnaskrá frambjóðandans eða þann málflutning sem gert hefur talsmenn flokksins að almennu aðhlátursefni hér á landi og víðar. Samanber varnarkerfi kvenlíkamans gegn sæði nauðgara.
Nú hljóta þessir tveir forystumenn Sjálfstæðisflokksins að skulda íslenskum kjósendum skýringar.
Hvað er það í stefnu og málflutningi bandarískra repúblíkana sem þau hrífast mest að? Hvaða stefnumál Mitts Romney eru það sem þau styðja? Hvaða stefnumál frambjóðandans og flokksins vilja þau bera fyrir íslenska kjósendur í komandi kosningum?
Svo er náttúrlega spurningin um hvernig á því getur staðið að íslenskir Sjálfstæðismenn halla sér fremur að Repúblíkanaflokknum bandaríska en Demókrataflokknum? Sem þó er kannski mun líkari hinum hefðbundna Sjálfstæðisflokki. 
  • 1
Flettingar í dag: 383
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 206
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 293049
Samtals gestir: 41979
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:01:08


Tenglar