Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


21.11.2010 09:15

Spurt og svarað í útvarpi

Ríkisútvarpið, hljóðvarp, hefur ákveðið að spyrja alla frambjóðendur til Stjórnlagaþings þriggja meginspurninga, um afstöðu þeirra. Þessi viðtöl eru tekin upp og verður síðan útvarpað í belg og biðu frá og með mánudagskvöldi 22. nóvember. Hver frambjóðandi fær 5 mínútur í mesta lagi.

Ég fór í upptöku í gær og það var reyndar ansi skemmtileg reynsla. Níu frambjóðendur í hópi og rætt við hvern og einn sérstaklega, án þess að hinir blönduðu sér í málið. Þetta var reyndar mjög þægilegt og afslappað fyrirkomulag.

Hér á eftir fara spurningarnar og svör mín við þeim. Svörin eru í punktum, ætluð til að styðjast við og komust efnislega öll til skila, þótt ég stytti mér leið sums staðar vegna tímarammans.

1. Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

Já, það þarf að breyta stjórnarskránni til samræmis við það samfélag sem við búum í og viljum búa í.
Þessi tímapunktur er mjög heppilegur til slíkra breytinga.
Aðstæður í samfélaginu eru þannig að sennilega hefur sjálfsmat þjóðarinnar aldrei verið lakara.
Almenningur í landinu er reiður út í fortíðina, fullur tortryggni út í nútíðina og hræðist framtíðina.
Allt þetta vegna aðstæðna sem skapast hafa vegna ævintýramennsku nokkurra einstaklinga, en sem hin venjulegu Jón og Gunna báru enga sök á eða gátu á nokkurn hátt haft áhrif á.
Þess vegna tel ég nauðsynlegt að breyta þeim ramma um lagalegt umhverfi sem stjórnarskráin er.
Gerð nýrrar stjórnarskrár gæti verið fyrsta skrefið í áttina að nýju opnara og réttlátara samfélagi, sem kastaði ekki fyrir róða hagsmunum almennings til hagsbóta fyrir örfáa efnamenn.

2. Hverju þarf helst að breyta?

Þar má ýmislegt tína til. Sum atriði eru ofar í huganum en önnur, eins og gengur.
Þar er efst í huga umgengni og nýting auðlindanna. Þar trónar auðvitað efst nýting þeirrar auðlindar sem er fiskurinn í sjónum.
En einnig hlýtur að koma þar inn nýting jarðhita og þeirra auðlinda annarra sem felast í íslenskri náttúru, ofanjarðar jafnt sem neðanjarðar.
Því er gjarnan haldið fram að fiskurinn í sjónum sé auðlind í eigu þjóðarinnar. Almenningi er hins vegar misboðið vegna þess hve augljóst óréttlætið er í nýtingu hennar. Þar hefur örfáum einstaklingum nánast verið veitt eignarheimild á fiskinum í sjónum. Þessi þjóðareign er færð til eignar í bókhaldi útgerðarfyrirtækja. Lagaramminn stjórnarskrá verður að taka á þessu óréttlæti.
Annar þáttur er skarpari skil löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Ég hef undanfarin ár verið að komast á þá skoðun að ráðherrar eigi ekki að gegna þingmennsku.
Þessi þróun á raunar rætur í kennslunni hjá mér. Í fjölmiðlafræði ræði ég við nemendur um ýmsa þætti stjórnarskrárinnar, svo sem þrískiptingu valdsins og 73. greinina um tjáningarfrelsi og þá ábyrgð sem því fylgir.
Í umræðunum um þrískiptinguna hef ég smám saman verið að þróast frá því að hafa svo sem engar áhyggjur af málinu yfir í að sannfærast um að það sé óheppilegt að ráðherrar gegni einnig þingmennsku.
Þriðja atriðið er hlutverk forseta lýðveldisins. Af 81 grein stjórnarskrárinnar fjalla 28 um embætti forseta Íslands.
Langstærstur hluti þessara greina eru orðin tóm, hafa ekkert gildi í því þingræði sem við búum við og viljum búa við. Ný skilgreining á hlutverki þjóðhöfðingjans verður því að fara fram.
Sú hugmynd hefur skotið upp kollnum, að forsætisráðherra eða jafnvel forseti Alþingis eigi einnig að gegna stöðu forseta lýðveldisins. Þetta er fráleit hugmynd. Með því væri verið að dubba upp í þjóðhöfðingja einhvern einstaklings sem aðeins var til þess kjörinn að sitja á þingi, en ekki verða þjóðhöfðingi.
Þessi umræða smitast ansi mikið af pirringi vegna afskipta núverandi forseta af lagasetningum, þegar hann beitti þeim rétti sem honum er veittur í 26. grein stjórnarskrárinnar, að vísa ákvörðun Alþingis til þjóðaratkvæðis.
Hér verða menn hins vegar að geta skilið á milli málefnis og persóna.
Ég er á þeirri skoðun að þjóðin eigi að kjósa sér þjóðhöfðingja.
Fjórða atriðið er samband ríkis og kirkju. Þar tel ég að enginn trúarhópur eða kirkjustofnun eigi að hafa stöðu sem kirkja þjóðarinnar. Þessi afstaða byggist hvorki á andúð á guðstrú eða trúarstarfi. Það er einfaldlega mín einlæg skoðun að allir trúar- og lífssýnarhópar eigi að standa jafnfætis í samfélaginu. Ég trúi að slíkt skipulag myndi byggja upp meiri skilning og umburðarlyndi í samfélaginu. Sumir myndu segja að ekki veitti nú af.


3. Hver vegna gefur þú kost á þér?

Að skapa nýja stjórnarskrá er ákaflega merkilegt og vandasamt verk, og heillandi að geta fengið að taka þátt í því.
Ég hef á ævinni tekið þátt í lífi og átt samskipti við fólk á flestum þrepum samfélagsins. Fari svo að ég verði kjörinn á Stjórnlagaþing er ég sannfærður um að sú reynsla og þekking og sá þroski sem ég hef öðlast í starfi hér á landi og erlendis geri mig hæfan til að gegna starfinu með sóma.
  

Flettingar í dag: 103
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 210206
Samtals gestir: 60084
Tölur uppfærðar: 3.8.2021 10:43:18