Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


15.11.2010 11:59

Forsetaembættið

Embætti forseta lýðveldisins er fyrirferðarmikið í stjórnarskránni, 28 greinar af 81. Það er 2. kafli stjórnarskrárinnar sem fjallar um þetta æðsta embætti þjóðarinnar.
Því er stundum haldið fram að embætti forsetans sé i raun ekki annað en konungshlutverk í nýjum búningi. Þegar annar kaflinn er lesinn er varla hægt að komast hjá því að samþykkja það. Stór hluti kaflans er um þætti embættisins, sem sjaldan ef nokkru sinni hefur verið farið eftir. Eða reynt hefur á. Þetta rennir stoðum undir það, að íslenska stjórnarskráin sé í raun sú danska, stílfærð. Þar sem áður stóð konungur standi nú forseti.
Í reynd hefur embættið meira verið tákn en valdaembætti. Forsetinn hefur vissulega völd samkvæmt stjórnarskrá, en vegna þess munar sem er á konungsveldi og lýðræði kæmi aldrei til álita að forsetinn beitti stjórnarskrárlegum rétti til fulls. Hér má nefna heimild til að fresta fundum Alþingis eða til að flytja embættismenn milli starfa.
Í reynd hefur embættið þróast þannig að forseti framkvæmir það sem ríkisstjórn felur honum að gera. Undirritar lög og tilskipanir. Þegar undan er skilin 26. greinin (um málskotsréttinn) er fátt um greinar sem fjalla um frumkvæði forsetans í óþökk sitjandi ríkisstjórnar.
Þegar þetta hefur verið lesið er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að ég vilji leggja forsetaembættið niður, þar sé gagnslaust. Það er hins vegar röng niðurstaða.
Þær hugmyndir hafa komið upp, að breyta forsetaembættinu í þá veru að forsætisráðherra eða forseti Alþingis gegni hlutverki forseta Íslands. Þá eru menn í raun að leggja til að forsetaembættið verði lagt niður. Embætti þjóðhöfðingja verði lagt niður en alþingismaður dubbaður upp í að verða forseti lýðveldisins. Þetta er vond hugmynd, sem mér reyndar finnst að sé runnin undan þeirri áráttu að geta ekki slitið í sundur málefni og persónur. Þessi afstaða á sér beina tengingu við þá staðreynd að forseti hefur í tvígang hafnað því að staðfesta lög og skotið þeim til þjóðarinnar.
Svo því sé til haga haldið, þá fagnaði ég fyrra tilfellinu (fjölmiðlafrumvarpinu) og brást reiður við í seinna skiptið (IceSave). Það fyrra varð þó ekki til að ég legði sérstaka ást á forsetann, né heldur lagði ég á hann sérstaka fæð í seinna skiptið. Hér var einfaldlega um rétt forsetans að ræða og hann taldi í bæði skiptin rétt að nýta sér hann, örugglega til hagsbóta fyrir þjóðina að hans mati.
Ég er sem sagt hlynntur embætti þjóðkjörins þjóðhöfðingja. Ég er jafnframt sannfærður um að hann verður að vera kjörinn af meirihluta þjóðarinnar. Sem þýðir að sé um fleiri frambjóðendur en tvo að ræða verður að fara fram kosnin milli tveggja efstu frambjóðendanna. Þannig verður kjörinn þjóðhöfðingi alltaf með meirihluta kjósenda á bak við sig. Sem er örugglega mikilvægt fyrir báða aðila; þjóðina og þann sem kjörinn er.
Stór hluti þeirra ákvæða sem fjallað er um sem hluta af embætisfærslu forsetans eru orðin tóm. Þau á að grisja hressilega á Stjórnlagaþingi, þannig að embættið sé í takt við það samfélag sem við búum í.
Flettingar í dag: 103
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 210206
Samtals gestir: 60084
Tölur uppfærðar: 3.8.2021 10:43:18