Leiðin til Esfahan í gær var slitin í sundur með nokkrum stuttum stoppum. Við kvöddum hótelið okkar, Moshir al Mamalek og ókum áleiðis til Esfahan. Stoppuðum þó til að skoða gamlan áningarstað fyrir úlfaldalestir fortíðarinnar, vefara og póstminjasafn, þar sem þeir hestamennirnir Jónas og Svavar hneyksluðust mjög á mélunum sem notuð höfðu verið á pósthestana. Svo var skutlast yfir götuna að skoða íshús áður en lagt var í eyðimörkina.
Í steikjandi hitanum var gott að stansa við vegasjoppur og aðra staði sem gáfu tilefni til að teygja úr fótunum. Á einum áningastaðnum var falleg moska sem ástæða var til að mynda. Við skoðuðum op sem notuð höfðu verið til eftirlits með vatnsgöngunum: þeim var haldið opnum með nokkrum bíldekkjum sem komi var fyrir efst í opunum til að koma í veg fyrir að þau hryndu saman.
Eyðimerkur eru sannarlega auðn og tóm, en inn á milli eru minjar sem vert er að skoða, svo sem eins og moskan í Nair, sem er bæði ofanjarðar og neðan; notuð ofanjarðar ef veður [hitinn altso] er skaplegt en verði of heitt eða of kalt er messuhaldið flutt neðanjarðar, þar sem birtu er hleypt niður um alabastursglugga. Hitastigið neðanjarðar er í öfugu hlutfalli við hitastigið ofnjarðar; svalt í hitum, heitt þegar kólnar.
Síðasta mynd dagsins var tekin í lok dags, út um gluggann á sjöundu hæð Aseman hótelinu í Esfahan.
Skrifað af Haukur Már Haraldsson