Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


16.09.2014 17:52

Síðasti dagur - sumra - í Teheran

Þetta átti að vera síðasti dagurinn í Teheran í þessari ferð og er það fyrir helminginn af hópnum. Vegna mistaka í bókun hjá Icelandair þarf hinn helmingurinn að vera sólarhringnum lengur.

En þetta var fínn dagur, eins og reyndar þeir sem á undan eru gengnir hér í Íran. Við sváfum frameftir, fórum ekki fyrr en klukkan tíu af stað úr lobbíinu fína og þá sem leið lá í Þjóðminjasafnið. Þar er margt skemmtlegt og fróðlegt að sjá eins og gefur að skilja í landi þar sem saga og menning eru allt um kring. Við tókum – eða fengum mann til að taka – mynd af hópnum. Ansi glæsilegur hópur. [Sjá neðst.]

Hádegisverðinn snæddum við í vinsælu veitingahúsi þar sem þægilegasti kvartett sá um notalega dinnermúsik. En svo kom söngvarinn.

Á leiðinni til hótels og síestu ókum við framhjá fyrrum bandaríska sendiráðinu, sem nú hefur verið breytt í safn um byltinguna. Segiði svo að Íranir séu húmorslausir.

Ferðaskrifstofan sem sá um skipulag ferðarinnar innanlands bauð hópnum til kveðjukvöldverðar. Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá turninum sem upphaflega var reistur sem minnisvarði um íranskan arkitektúr og er auðvitað enn, en hann er í dag einnig tákn um klerkabyltinguna.

Ég notaði tækifærið og tók mynd af sem allra flestum ferðafélögum við kvöldverðarborðið, sem og fulltrúum ferðaskrifstofunnar. Stúlkan með bleiku slæðuna er sú sem ætlar að leiðsegja þeim hluta hópsins sem eftir verður á morgun.

Síðasta myndin í færslu dagsins er af hópnum öllum, tekin á tröppunum fyrir utan Þjóðminjasafnið.

Nú ætla ég að leggja mig og vera endurnærður þegar ég heimsæki heimili Khomenis í fyrramálið. Ég er nefnilega einn þeirra heppnu sem verða að vera sólarhring í viðbót í Teheran.

 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

 
 
 

 

 

 
 
 
 

 

 
 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 227
Gestir í gær: 48
Samtals flettingar: 316387
Samtals gestir: 44540
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:48:02


Tenglar