Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


16.02.2021 23:08

Góður vinur kvaddur

Það eru liðlega fimmtíu ár síðan við Svavar Gestsson hittumst fyrst, á Gildaskálanum í Aðalstræti; hann vestan úr Dölum, ég ofanúr Þingholtunum. Vorum þar í fámennum en góðmennum hópi ungra manna sem vildu hafa áhrif til góðs fyrir land og lýð og bæta samfélagið. Örlögin höguðu því svo að síðar áttum við eftir að vinna mikið saman, í Æskulýðsfylkingunni og Alþýðubandalaginu og um stund í Samfylkingunni áður en við völdum hvor sinn flokkinn. En ekki síst á Þjóðviljanum, sem var bæði sérstakur vinnustaður og skemmtilegur.

Mér er minnisstætt þegar við sátum í herberginu hans í Þórshamri 1978 og þessi fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og nýkjörni þingmaður var allt í einu orðinn ráðherra viðskiptamála, og þar með bankamálaráðherra. Starfsmenn Þjóðviljans, eða raunar blaðið sjálft, voru áreiðanlega ekki með gjöfulustu viðskiptavinum bankanna þá, fremur en síðar. Við flissuðum og hlógum jafnvel að þessari að okkur fannst geggjuðu stöðu áður en formlegheitin gátu hafist og ég tekið viðtal við nýjan ráðherrann fyrir blaðið okkar.

Seinna fór hann svo í diplómatíuna eftir viðburðaríkan feril í  pólitíkinni. Þótti ekki öllum gæfulegt að þessi fyrrum allaballi, hernáms- og Nató-andstæðingur yrði hluti af þeirri innvígðu sveit. Slíkur hafði enda aldrei komist til metorða á því sviði. En hann sinnti þeim störfum með sóma eins og öðru. Byrjaði sem ræðismaður í Kanada, síðar sendiherra í Svíþjóð og loks í Danmörku, þar sem hann lauk sinni opinberu starfsævi. Árið 2000 naut ég gestrisni þeirra Guðrúnar, þegar rútufylli ferðalanga sem ég leiðsagði um Íslendingaslóðir þáði heimboð þeirra hjóna í síðdegissamkomu. Svo aftur seinna í Stokkhólmi þegar við nokkrir íslenskir kennarar á leið til norrænnar námsstefnu vorum boðin til spjalls og góðgerða á heimili þeirra. Rausnarlegir og skemmtilegir gestgjafar í þessu hlutverki eins og öðrum.

 

Fyrir sex árum eða sjö hafði hann svo samband og bað mig taka þátt í að endurreisa Breiðfirðing, rit Breiðfirðingafélagsins.Hann hafði tekið að sér að stjórna því starfi sem ritstjóri ritsins. Næstu fimm árin voru einstaklega skemmtileg; árlegar ferðir um byggðirnar við Breiðafjörð til efnisöflunar og myndatöku og ég kynntist merkilegum landshluta sem ég hafði satt að segja ekki kynnt mér sérlega vel fyrstu sjötíu ár ævinnar. Nú kynntist ég ekki aðeins því fólki sem lifir og hrærist umhverfis Breiðafjörð og eyjunum heldur ekki síður margbreytilegri sögunni, menningunni sem ég komst að að er allt um kring. Og þá var gott að vera í félagsskap Svavars, hvílíkur hafsjór fróðleiks, þekkingar og frásagnargleði. Hún var býsna ómerkileg sú þúfa sem hann ekki þekkti eða þá sem tyllt höfðu þar staf sínum í aldanna rás. Sama um eyðibýli og bæjarrústir.

Sú ákvörðun var tekin af ritstjóra og ritnefnd Breiðfirðings í upphafi þessa starfs að í ritinu yrði fjallað um allar byggðir við Breiðafjörð; frá Hellissandi og Rifi í suðri til Tálknafjarðar í norðri. Það var gert. Listamenn og þjóðgarður á Hellissandi og nágrenni, æðarækt á Rifi, staðbundið skólastarf og fjarkennsla í Grundarfirði og atvinnurekstur víða um fjörðinn. Heimsótt elliheimili í Búðardal og verslun á Reykhólum. Saga húsanna og fuglalíf í Flatey, mannlíf og tæknivætt seiðaeldi í Tálknafirði. Rætt um stjórnsýslu við bæjarstjóra og hafnarstjóra, svo eitthvað sé nefnt. Það átti að kynna mannlífið umhverfis fjörðinn.

Síðasta ferðin var í Tálknafjörð, sem strangt til tekið er alls ekki við Breiðafjörðinn, en lega staðarins er þannig að það væri eiginlega hálfgert svindl að hafa hann ekki með. Guðrún Ágústsdóttir, eiginkona Svavars, var með í för og eftir gott dagsverk á staðnum fengum við okkur að snæða á litlum veitingastað í þorpinu. Þetta var mjög eftirminnilegur kvöldverður. Um leið og aðrir matargestir áttuðu sig á hver þarna sat að snæðingi gerðu þeir sér óðara erindi að borðinu til okkar, að spjalla við Svavar. Til sumra þekkti hann ef að minnsta kosti annað foreldri viðkomandi var nefnt, en ef hann þurfti að spyrja að uppruna þekkti hann óðara næstu ættkvíslir í bæði föður- og móðurætt og gat jafnvel sagt af þeim sögur. Og honum fannst þetta ósegjanlega gaman. Var í essinu sínu. Við Guðrún snæddum okkar ljómandi góða kvöldverð og hlustuðum af athygli og skemmtan.

Ást Svavars á Breiðafirði var án skilyrða. Nema að einu leyti. Hann vildi ekki fara sjóleiðina yfir fjörðinn; ekki sigla, ekki að ræða það. Eins og hann orðaði það við mig, glottandi: Ég myndi elska Breiðafjörðinn enn meira ef ekki væri allt þetta vatn í honum!

Mikil og víðfeðm söguþekking og fróðleiksfýsn Svavars var áreiðanlega hluti þess drifkrafts sem dreif hann áfram í menningarmálum Dalabyggðar. Hann unni sveitinni sinni, Dölunum og vildi veg hennar sem mestan. Gullni söguhringurinn, Vínlandssetur, uppbygging Staðarhóls í minningu Sturlu Þórðarsonar. Krafturinn óendanlegur. Og þau Guðrún reistu sér lítinn framtíðarstað þar sem heitir í Hólaseli á yndislegum stað þar sem vestursýnin yfir fjörðinn gerist vart fegurri. 

Fjölskylda Svavars Gestssonar, Guðrún, börn, tengdabörn og barnabörn, hefur misst mikið. Dalamenn og -konur sjá nú einnig á bak dugnaðarforki í að efla sögumenningu byggðanna. Sjálfur sakna ég vinar í stað. En minning Svavars Gestssonar mun lifa til frambúðar í árangrinum af frumkvöðlastarfi hans fyrir byggðina sem hann unni svo mjög.

 

Haukur Már Haraldsson

Flettingar í dag: 551
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 3619
Gestir í gær: 533
Samtals flettingar: 498204
Samtals gestir: 67260
Tölur uppfærðar: 14.11.2024 16:25:18


Tenglar