29.11.2011 09:39
Í dag viðurkenna Íslendingar Palestínu sem fullvalda ríki. Þetta er því dagur réttlætis á Alþingi. Dagurinn þegar þingmenn lýsa yfir þeirri kröfu sinni að óréttlætinu ljúki, að íbúar Palestínu fái leyfi til að lifa lifinu án þeirrar þrúgandi kúgunar og þess skefjalausa ofbeldis sem þeir hafa mátt þola um áratuga skeið. Með samþykkt sinni í dag leggjum við, sem Íslendingar, lóð okkar á vogarskál réttlætisins.
Í umræðum á Alþingi í gærkvöldi voru fulltrúar allra flokka sammála um þetta mál, allir nema talsmaður Sjálfstæðisflokksins, þingflokksformaðurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir. Aðrir þingmenn tjáðu sig margir mjög tilfinningaþrungið vegna þess óréttlætis sem Palestínumenn hafa mátt búa við. Mögnuðust var þó ræða Amal Tamimi, ekki síst vegna þess að hún er eini þingmaðurinn sem reynt hefur hörmungar Palestínumanna á eigin skinni.
Samþykkt Alþingis í dag mun því miður ekki gera daglegt líf Palestínumanna auðveldara frá og með samþykktinni. En hún er yfirlýsing og hún er ákall til annarra þjóða að gera slíkt hið sama. Og hún mun styrkja málstað Palestínumanna. Össur utanríkisráðherra hefur verið óþreytandi að tala máli Palestínumanna á fundum og þingum. Framvegis getur hann fengið notað viðurkenningu Íslands á fullvalda Palestínu málstaðnum til framdráttar.
Skrifað af Haukur Már Haraldsson