Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


23.11.2010 10:30

Að vekja ótta og vanmátt

Það er dálítið undarlegt hve sumir telja sér nauðsynlegt að tala kosninguna til Stjórnlagaþings niður. Reyna að koma fólki í skilning um að svo erfitt sé að kjósa og flókið, að það eiginlega borgi sig ekkert að vera að hafa fyrir því. Jafnvel prófessor við Háskóla Íslands telur sér sæma að vera með svona úrtölur í Kastljósi. Þetta hefur borið árangur, því miður. Ég hef tengsl við Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar á bæ, segir mér íbúi, er það almenn skoðun að ekki borgi sig að fara á kjörstað; þetta sé allt svo flókið og torskilið, að "við getum þetta ekki".

Þetta er þeim mun alvarlegra sem kosningin er afar einföld.

Hver er tilgangurinn með svona málflutningi? Hvað er svona hættulegt við það, að almenningur þessa lands kjósi sér fulltrúa til að gera drög að nýrri stjórnarskrá? Hverjum er gerður ógreiði með því?

Eru einhver öfl að reyna að vernda torfuna sína; forða því að pöpullinn sé að sletta skipta sér að því sem honum kemur ekki við?

Þetta ástand leiðir það hins vegar í ljós að einn er sá hópur sem hefur verið afskiptari en aðrir, þegar kemur að kynningu á framkvæmd kosninganna. Það er hópurinn sem ekki hefur aðgang að netinu. Eldri borgarar eru að megninu til hluti þessa hóps. Tæknin var einfaldlega ekki orðin sá hluti hversdagslífsins sem hann er í dag, þegar þetta fólk fór af vinnumarkaði; það hafði ekki lært að fóta sig í tölvuheimi og netsamskiptum.

Þess vegna hefði kannski þurft að haga kynningarmálum vegna kosninganna með ítarlegri og betri hætti gagnvart elstu kynslóðinni.

Sem breytir ekki því, að kosningarnar eru auðveldar í framkvæmd og ástæðulaust að ala á ótta við eitthvað annað.
Flettingar í dag: 691
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1699
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 530665
Samtals gestir: 70138
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 13:13:00


Tenglar