Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


10.11.2010 20:58

Tengsl ríkis og kirkju

Í dag fékk ég tvær spurningar frá Biskupsstofu. Þær voru raunar senda öllum frambjóðendum til Stjórnarskrárþings. Hljóðuðu svo:

"Biskupsstofa fer þess visamlegast á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum." 
1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig? 
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?"


Von að spurt sé, svo mjög sem þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið í umræðunni undanfarin misseri.

Mitt svar við fyrri spurningunni er ekki flókið. Ég tel ekki að neinn einn trúarhópur eða kirkjustofnun eigi að hafa stöðu kirkju þjóðarinnar. Í þessu felst hvorki andúð á guðstrú eða trúarstarfi, þótt sjálfur sinni ég hvorugu nema þegar skyldan knýr mig til. Það er mín einlæg skoðun að allir trúar- og lífssýnarhópar eigi að standa jafnfætis í þjóðfélaginu og þeir eigi að starfa fyrir það fé sem þeir geta aflað sér meðal félagsmanna sinna eða áhangenda.

Seinni spurningunni kom mér aftur á móti í bobba. Ég hef hreinlega ekki svo ítarlega þekkingu á sambandi ríkis og þjóðkirkju að ég geti myndað mér vitræna afstöðu til hennar. Nema auðvitað að ég vil ekki að fyrirbærið þjóðkirkja sé til staðar. En samband ríkis og þjóðkirkju er mun flóknara en svo að það snúist bara um þjóðkirkjuna sem slíka.
Flettingar í dag: 691
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1699
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 530665
Samtals gestir: 70138
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 13:13:00


Tenglar