Hvað situr eftir þegar lokið er tveggja vikna ferð um land, sem maður þekkti alls ekki fyrir, með hópi fólks sem maður þekkti ekki nema að litlum hluta til fyrir ferðina?
Þegar ég lít til baka yfir vikurnar tvær frá 3. september sl. er það einkum fernt sem mér er minnisstæðast. Landið, sagan, menningin og ekki síst fólkið sem við ferðafélagarnir kynntumst, almenningur.
Landið
Ég hafði vissulega nokkra hugmynd um að í Íran væri gnótt sands og víðfeðmar eyðimerkur, en ég vissi ekki að það væri svo fjöllum skrýtt sem það er. Og það af fjöllunum sem við sáum nakin, sendin og klettótt. En inn á milli fjallgarðanna voru mörg iðagræn svæði þar sem ræktað var grænmeti. Hvernig mátti það vera, svona inni í eyðimörkinni? Svarið kom ekki bara mér á óvart. Undir eyðimerkum landsins – á nokkurra metra dýpi – liggur þúsunda kílómetra kerfi ganga sem safna vatni sem myndast í sandinum. Þetta vatn er notað fyrir heimilin og til ræktunar. Þetta kerfi er ævafornt, frá því löngu áður en verkfræðin var fundin upp sem fag. Lýsingin á því, hvernig það var lagt sýndi að hugvitið er ekki nýtt hjá mannskepnunni; þrjár ljóstýrur notaðar til að marka beina línu ganganna, einföld hallamál til að ná hæfilegum vatnshalla. Áherslan á vatn og gróður til að auðga mannlífið er mjög áberandi; mikið af almenningsgörðum þar sem börnin busla í manngerðum lækjum, sama um hallargarða sem opnir eru almenningi, þar leikur vatnið veigamikið hlutverk, sem vettvangur leikja og lífgjafi grass, blóma og trjáa.
Landið kom mér skemmtilega á óvart.
Sagan
Í Íran er sagan við hvert fótmál og það er hlúð að henni, henni gert hátt undir höfði. Þar sem við komum var víða verið að endurbæta og vinna að viðhaldi. Fagrar moskur, vatnstankar, ísgerðarhús, gamlar hallir og gömul hús, heilu bæjarhverfin. Byggt upp og gert nothæft. Veitir vissulega ekki af sums staðar. Íranir eru stoltir af sögu sinni og hampa henni óspart. Án tillits til hverjir fóru með stjórn landsins hverju sinni. Þannig er glæsilegt glerlistasafn sem stofnað var til fyrir tilstilli keisaraynjunnar Farah Dibu notað sem dæmi um þróun glerlistar í aldanna rás, á sama hátt og fornar moskur eru dæmi um áherslur einstakra [jafnvel fámennra] hópa. Ýmsar hallir, opinberar eða í einkaeigu áður fyrr eru sýndar með stolti sem partur af sögunni. Og það er svo sannarlega ástæða til stoltsins.
Djásnið í sögunni er líklega Persepolis, Borg Persanna. Þar hefur mikið verið grafið upp og lagfært og enn verið að. Necropolis, Borg hinna dauðu, er annað dæmi. Í Pasargad er verið að byrja að endurbyggja umhverfi grafhýsis Kýrusar fyrsta Persakonungs. Svo mætti lengi telja.
Sagan kom mér ekki á óvart en áherslan á hana gladdi mig
Menningin
Eiginlega er menningin samofin sögunni og því ástæðulaust að hafa sérstakan undirkarfla um hana. Persepolis er auðvitað hluti af menningunni, dittó Necropolis, moskurnar allar og hallirnar. Byggingarlistin. En ekki síst vatnið og gróðurinn; hugmyndafræði umhverfisins, þar sem lögð er áhersla á tengsl manns og náttúru.
Trúin er stór þáttur menningarinnar og þróunar hennar; trúarbrögð hafa alltaf skipt máli. Zorostrianar með trú sína á höfuðöflin fjögur og árstíðirnar og tengsl manns og náttúru, islam með prédikun um frið og leyfi allra til að tilbiðja sinn guð í friði. Því eru hér gyðingar, kristnir og fleiri hópar sem lifa í friði með múslimskum nágrönnum sínum og vinum.
Perzman leiðsögumaður ræddi við okkur og útskýrði trúmál og skiptingu Islam í fylkingar sem ekki geta á sátts höfði setið. Stutta útgáfan er sú að Súnní múslimar séu harðari á bókstafnum og vilji engri túlkum breyta þótt bæði samfélög og tíðarandi breytist. Shia múslimar eigi aftur á móti auðveldara með að laga kennisetningarnar að samfélaginu, breytast með tíðarandanum og vitna í því til ummæla í Kóraninum. Í Íran ríkja shia múslimar og þar gerast breytingar, en afar hægt og rólega, enda hafa menn ekki trú á byltingu í þessum efnum. Slæðan er gott dæmi. Hún er skylduhöfuðfat en virðist notuð á afar mismunandi hátt, mismunandi frjálslega getum við sagt.
Ekki má gleyma bókmenntunum. Íranir hampa sínum höfundum, ekki síst ljóðskáldum. Þar eru einkum tvö höfð í sérstökum hávegum, súfistinn Hafez og svo Saadis, minnismerki um báða eru í Sjiraz. Verk þeirra eru í misjöfnum „stíl“ ef svo má segja, en ég fer ekki nánar út í þá skilgreiningu. Einn ferðafélaganna var afar ósáttur yfir því að uppáhaldinu hans, Omari Khayam, skyldi ekki vera gert hærra undir höfði í Íran; hann komst ekki einu sinni inn á top 20, þegar fjallað var um höfuðskáldin.
Mannfólkið
Kannski var það viðmót almennings sem kom mér mest á óvart. Það byrjaði strax í biðsalnum á flugvellinum í Frankfurt, þegar eldri kona tók okkur Jónas Kristjánsson tali og spurði á bjagaðri ensku hvort við værum að fara til Teheran. Þegar við jánkuðum því spurði hún hvaðan við værum, en áttaði sig ekki alveg á því hvað eða hvar þetta Ísland væri, ekki Iceland heldur. Svo hún leitaði til landa sinna sem sátu þarna hjá og spurði, sem fjölgaði viðmælendum í eina fimm. Þegar þeim hafði skilist hvar þetta Ísland væri, þarna langt uppfrá hjá Norðurpólnum næstum því, setti það upp undrunarsvip: Hvað var fólk þarna norðanfrá að vilja til Íran? Kynnast landinu, menningunni, sögðum við, og fólkinu. Það fannst þeim frábært. Íranir eru nefnilega engin fífl, eins og Jóhanna fararstjóri orðaði það einhvern tíma, þeir vita alveg hvernig talað er um landið þeirra og þjóðina í erlendum fjölmiðlum. Þess vegna fagna þeir hverjum útlendingi og vilja allt fyrir hann gera.
Það var skemmtilegt að ganga um götur og torg og garða. Alltaf voru þar einhverjir sem vildu spjalla. Gengu að manni, svolítið feimnislegir sumir og buðu mann velkomin til Íran og vildu fá að spjalla. Báðu gjarnan um leyfi til að vera með á mynd, sem þá var tekin á síma viðkomandi eða smámyndavél. Brosandi út í bæði. Tvær unglingsstúlkur komu til mín í garði og báðust afsökunar á framhleypninni, en „af hveru er þessu mynd á handleggnum á þér“. Þetta tattú er liðlega fimmtíu ára gamalt og farið að verða ansi dauft og upplitað. Ég útskýrði myndina; þetta er seglskúta, hér er sjórinn, þetta er skipið og hér þanin seglin, fuglar fljúga um í sólroðanum. Þær ljómuðu, já seglskip. Þegar ég sagði þeim að myndin væri svona dauf vegna þess að það væru liðlega fimmtíu ár síðan hún var sett á mig fórnuðu þær höndum; fimmtíu ár! Það hefur sennilega verið áður en foreldrar þeirra fæddust.
Það var veifað til okkar úr strætisvögnum og bílum og i det hele tatt var tilfinningin sú að við værum svo sannarlega velkomin í þessu landi.
Annað sem vakti mikla athygli var samkennd fjölskyldunnar, stórfjölskyldunnar. Hvert sem við fórum sáum við fjölskyldur í „pikknikk“; þrír ættliðir komu með mat, breiddu teppi á jörðina, elduðu matinn og sátu svo og spjölluðu saman, fengu sér jafnvel í vatnspípu meðan börnin léku sér. Annað sem vakti ekki síst athygli kvennanna í hópnum var hve karlmennirnir virtust vera mikið með börnin. Þeir héldu gjarnan á þeim á götum úti, léku sér mikið með þeim; tóku að því er virtist virkan þátt í uppeldinu.
Þetta eru vangaveltur í ferðarlok. Þá er eiginlega aðeins eftir að þakka fyrir sig. Hópurinn, 28 manns, var mér að mestu ókunnugur fyrir ferðina. Á kynningarfundi kom í ljós að ég gat með góðu móti sagt að ég þekkti tvo, kannaðist við aðra tvo og þar með búið. Ég vissi því lítið með hverjum ég var að fara í ferðalag. Skemmst er frá því að segja að þessi hópur mismunandi fólks á mestöllum aldri small saman. Gamansemi og skemmtilegheit voru allsráðandi og þyrfti einhver aðstoðar við fékk hann hana umyrðalaust. Fararstjórinn, hún Jóhanna Kristjóns réði þar miklu um og ekki síður leiðsögumaðurinn Pezhman Azizi, hafsjór fróðleiks á öllum sviðum.
Takk fyrir mig öll sömul, þetta var hreint frábært.