Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


17.09.2014 14:27

Allra síðasti dagurinn í Teheran - og Íran

 
 

Dagurinn byrjaði laglega með bjartviðri yfir borginni; ekkert nýtt í því. Við fórum undir verndarvæng Atefeh Fateh leiðsögumanns, þar sem Perman var farinn til annars hóps. Fyrst fórum við að skoða heimili Khomenis erkiklerks, en það hefur verið gert að safni. Afskaplega „rólegt“ safn, engin helgislepja eins og ég hafði búist við. Ekki er hleypt inn á heimilið, heldur verða gestir að skoða það inn um glugga. Aftur á móti gátum við farið í salinn þar sem hann ávarpaði fylgismenn sína og lítilsháttar safn í kjallaranum. Atefeh tók mynd af hópnum fyrir framan mynd af erkiklerkinum.

Þá var farið í glerlistasafn sem fyrrum keisarynja Farah Diba beitti sér fyrir. Þar eru glæsileg verk frá ýmsum tímum og mörgum löndum og uppsetningin eiginlega listaverk út af fyrir sig.

Þá var kominn tími á kaffihús áður en farið var á hótelið, sem ekki var hlaupið að. Umferðin í Teheran á álagstíma eru lyginni líkust; það eru áreiðanlega einhverjar reglur í gildi, skráðar eða óskráðar. A.m.k. sér maður varla skrámaðan bíl. En aðkomumenn eins og við áttum erfitt með að skynja sístemið í galskapnum. Það tók hátt á annan klukkutíma að komast úr miðbæ í úthverfið þar sem Hótel Azadi er. En Teheran er reyndar sautján milljóna íbúa borg og víðáttumikil eftir því.

Á eftir er það svo kvöldverður. Smáblundur áður en við leggjum af stað út á flugvöll laust eftir miðnætti. Á loft frá Teheran kl. 03:55 til Vínarborgar, þaðan til Frankfurt og heimkoma er áætluð á fjórða tímanum eftir hádegi á morgun. Hætt við að einhverjir verði slæptir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 1028
Gestir í dag: 99
Flettingar í gær: 1413
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 376879
Samtals gestir: 53211
Tölur uppfærðar: 25.6.2024 11:37:57


Tenglar