Minningarorð
Haraldur Örn Haraldsson
Hann Haraldur bróðir minn fékk tónlistina í vöggugjöf. Hafði af henni yndi og dægrastyttingu alla sína ævi. Sérhver dagur var tónlistardagur.
Haraldur Örn fæddist blindur, en var svo heppinn að eiga föður sem var ekki bara áhugamaður um klassíska tónlist, heldur spilaði auk þess á píanó heimilisins verk meistaranna eftir nótum. Mér er brennt í minni þegar þessi litli bróðir minn sat í kjöltu föður síns og nam píanóleik með því að fylgjast með handahreyfingum hans. Hann rétt náði upp á nótnaborðið þegar hann byrjaði að spila sjálfur og þar sem bilið milli nótna var of langt fyrir hans litlu hendur notaði hann nefið á nótnaborðið. Það þótti okkur magnað að horfa á.
Þannig kynntist hann sígildri tónlist strax í æsku og kunni að meta hana alla tíð. En hún vék úr öndveginu fyrir amerískri sveitatónlist, kántrí, með tíð og tíma.
Eftir fermingu, þegar Haraldur var þrettán ára, fór hann utan til náms. Hafði lokið barnaskólanámi í Blindraskólanum við Bjarkargötu og síðan fullnaðarprófi frá Breiðagerðisskóla og nú fór hann til Osló í gagnfræðaskóla fyrir blinda og sjónskerta. Þótt foreldrar og systkini yrðu eftir á Íslandi var hann ekki einn í Noregi. Helga föðursystir hans Wendelbo og Per maður hennar í Osló sáu til þess. Þau gættu hans vel og hann var þeim ævinlega þakklátur. Í fjögur ár stundaði Halli nám í Huseby, nám sem byggði hann upp fyrir framtíðina; hann stundaði útivist, leikfimi, hestamennsku og jafnvel skiðagöngu, auk bóklegra greina og starfsgreina á borð við vélritun. En þarna í Huseby kynntist hann tveimur áhugamálum sem hann átti eftir að stunda af alefli; flugi og kántrímúsik. Hvað flugið snerti þróaði hann með sér hæfni til að þekkja allar flugvélategundirm á hljóðinu þegar þær flugu um loftin blá. Í framtíðinni var eins gott fyrir okkur sem flæktust um að muna tegund þeirra flugvéla sem við flugum með, og undirtegundir líka. Og að fljúga var hans uppáhald. Ferðir innanlands og utan með Sigurði bróður eða starfsmönnum sambýlisins við Stigahlíð urðu margar; Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir, London, Manchester, Toronto og fleiri staðir voru heimsóttir fljúgandi.
Hitt áhugamálið var sveitatónlist, amerísk. Hann gerðist nánast sérfræðingur í því sem viðkom þessari tónlist; lögunum, söngvurunum og söngkonunum. Safnaði vinyl og geisladiskum í miklu magni.
Okkur bræðurna greindi á um ýmislegt, ekki síst trúmál. Haraldur var mjög einlægur í trú sinni og hún hjálpaði honum síðasta spölinn. Hann vissi hvert stefndi síðustu vikurnar, en kveið engu. Frekar að hann hlakkaði til. Það verður gaman að koma til guðs og hitta pabba og mömmu og Gunnar bróður, sagði hann.
Skrifað af Haukur Már Haraldsson