Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


13.09.2014 18:08

Moskur, hallir og handverksmenn

Annar dagur í Esfahan; torgið stóra, ótrúlega fallegar moskur, fögur höll og önnur lúin, Armenska kirkjan og tveir frábærir veitingastaðir. Þetta er stutta útgáfan að viðbættum frumkvöðli prentverks í þessum heimshluta. Þeir sem þola ekki moskur og hallir eða sjálfhverfa bloggara geta því hætt hér.

Við sumsé byrjuðum daginn á torginu mikilfenglega með trjágróðri sínm og grasflötum og gosbrunni og hestakerrum í farþegaflutningum. Það er allt í lagi að geta þess að þetta svæði var pólóvöllur áður en því var breytt í þetta frábæra torg. Því til sönnunar eru marksúlurnar enn uppistandandi beggja vegna torgsins. Við skoðuðum Ali Qapu höllina sem stendur við torgið og fengum þaðan fínt útsýni yfir það.  [Ali=bestur, Qapu=hlið/dyr = Besta hliðið. Í rauninni er þetta sama nafnið og hin fræga Topkapi í Istanbul]. Þar vakti ekki síst athygli tónlistarsalur með undraverðan hljómburð. Frá Ali Qapu gengum við yfir í Imammoskuna, sem er hreinlega einstök í glæsileika sínum, innan sem utan. Hrifning mín á fallegum moskum fékk útrás, eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

Áður en við skruppum í armenska hverfið til að fá hádegisverð á armenskum veitingastað heimsóttum við dúkasala, sem prentar dúkana sína sjálfur með alls kyns mynstri, sem þrykkt er með „stimplum“ sem skornir eru út í tré. Sérlega áhugaverðir dúkar í ýmsum litbrigðum, þrátt fyrir aðferðina.

Frá veitingastaðnum armenska fórum við í Armensku kirkjuna og síðan í næsta hús í safn um sögu kirkjunnarar. Þar fylgir armensk bókaprentun [minnsta bókin á safninu er 0,7 gr. að þyngd, 14 blaðsíður] og þjóðarmorð Tyrkja á Armenum 1915. Í safninu eru gömul handrit, en einnig gömul handpressa og sýnishorn af lausaletri og prentuðum bókum. Handan götunnar er svo stytta af frumkvöðli prentverks í þessum heimshluta og þessi hér stóðst ekki freistinguna þegar myndataka stóð til boða. 

Síðasta höll dagsins var Hasht Behesht. Hún er eiginlega í niðurníðslu, en byrjað að endurbyggja hana. Til dæmis var ljósakróna sem dinglaði úr lofti forstofunnar þakin þykku lagi af ryki.  

Eftir síðdegishvíldina lauk svo deginum á frægasta veitingastað Esfahan, Shahrzad, sem nefndur er eftir sagnmeistaranum sem barg lífi sínu dag frá degi með sífellt nýrri sögu. Shahrzad er sem sagt konan sem sagði sögurnar sem þekktar eru í sögusafninu Þúsund og ein nótt. Veitingahúsið er skreytt minnum úr Þúsund og einni nótt, sérlega glæsilegt. Aðalrétturinn; lambakótilettur með hefðbundnum hrísgrjónum og grænmeti.

Á morgun er frjáls dagur og líklegt að flestir fari á markaðinn við torgið stóra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Flettingar í dag: 900
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 986
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 442064
Samtals gestir: 61628
Tölur uppfærðar: 9.9.2024 07:31:00


Tenglar