Af Silfurgarði
Hitt og þetta um áhugaverð og athyglisverð efni


12.09.2014 01:25

Gönguferð um Jasd

Seinni daginn í borginni fór internetsambandið og þessi pistill er því aðeins of seinn. Jasd – eða Yazd – er myndræn borg og miðvikudagurinn 10. sept. fór í að skoða hana. Byrjuðum á Húsi eldsins, sem er safn um Zorostriana, þar sem hinum heilaga eldi er haldið lifandi. Vegna áherslu Zorostriana á varðveislu eldsins hafa þeir gjarnan verið sagðir eldsdýrkendu, en svo er þó ekki; eldurinn er eitt höfuðaflanna fjögura í þeirra trú og það þeirra sem erfiðast var að kveikja í upphafi og því var og er lögð mikil áhersla á að halda honum lifandi, sem í dag er táknrænt. Verndari eldsins sér um það.

Þröngar götur gamla bæjarins eru skemmtilegar og þar sáum við bæði kyngreinda gestakomu og tröppur niður í gamalt vatnsforðabúr. Kyngreining gestanna felst í því að ef karlmaður kemur í heimsókn ber hann að dyrum með dyrahamrinum vinstra megin en kona knýr dyra með hamrinum hægra megin. Mismunandi hljóð segja húsráðendum hvort eigi að fara til dyra; húsfreyjan fyrir gestkomandi konu, karlinn opnar fyrir kynbróður sínum.

Eftir að hafa prílað upp á þak og skoðað fjölbreytilegt útsýni skutumst við í mosku með viðkomu í nokkrum verslunum. Parsman útskýrði fyrir okkur siði og táknmál helgihalds í moskum, þar á meðal muninn á bænahaldi og prédikunum, þar sem Imaminn situr í sérstökum ræðustól meðan hann flytur föstudagshugvekjuna.

Vatnsminjasafnið var næst og þar fengum við útskýringar á ótrulegri tækni sem íbúar eyðimerkurinnar beittu þegar þeir hófu að grafa net neðanjarðarganga til að safna saman því vatni sem myndast langt undir eyðimörkinni. Það er reyndar hreint ótrúlegt afrek og unnið löngu áður en tæknifræðin var fundin upp.

Áður en en degi lauk litum við inn á æfingu hjá iðkendum Bastani, æfinga sem byggja á fornri aðferð til að halda hermönnum í góðu formi. Húsnæðið sem svona æfingar fara fram í nefnist Zurkhaneh og æfingarnar fara fram undir þungum trommuslætti og söng trommuslagarans, sem í þessu tiviki er Íransmeistari í trommuslætti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

 

Flettingar í dag: 943
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 986
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 442107
Samtals gestir: 61629
Tölur uppfærðar: 9.9.2024 08:13:30


Tenglar