Föstudagur í dag, helgidagur í þessu landi. Af því leiðir að flestar verslanir eru lokaðar, a.m.k. fyrir hádegi. Við byrjuðum á að fara í Fjörutíu súlna höllina, sem var opinber móttökusalur fyrir löngu. Í þá daga voru húsið og glæsilegur garðurinn speglum skreytt og móttökur ævinlega fyrir hádegi, þegar sólin skein á speglana og allt umhverfið glitraði birtu sólar. Eftir hádegið var sólin komin bak við höllina og ekkert skein eða glitraði; þá voru enga móttökur. Aðalsalur þessa móttökuhúss er skreyttur gömlum, stórum málverkum sem við vorum frædd um. Það verður að viðurkennast að nokkrar myndir með þessum pistli bera þess merki að vera teknar flasslaust við erfiðar aðstæður. Málverkin í móttökusalnum eru þar á meðal.
Þá lá leiðin til teppasalans Hossein og félaga, þar sem hann fræddi okkur um leyndardóma vefnaðarlistarinnar, sem eru reyndar býsna margir og flóknir. Teppi og teppi eru sumsé ekki það sama, – og kosta reyndar ekki það sama heldur. Þau voru mörg einstaklega falleg, af öllum stærðum og gerðum.
Imammoskan var lokuð ferðamönnum þegar við komum á stóra torgið, þar sem föstudagsbænir stóðu yfir. En við röltum um og skoðuðum torgið og basarinn sem þar er umhverfis áður en við fórum og snæddum hádegisverð á stórskemmtilegu veitingahúsi, sem reyndar er hluti af basarnum. Skoðum torg og basar betur á morgun.
Eftir matinn var miniatúr listamaðurinn Mustafa heimsóttur. Hann er með gallerí og vinnustofu sína og sonar síns rétt við stóra torgið og sýndi okkur list sína. Hann býr sjálfur til penslana sem hann notar til myndsksköpunar; þeir eru gerðir úr kattahárum, örfáum í hverjum pensli. Hann teiknaði eina mynd fyrir okkur og gaf hana elsta þátttakandanum.
Loks lá leiðin að einni af mörgum undurfögrum og mörghundruð ára gömlum brúm yfir Lífgjafarfljótið. Síðan eftirmiðdagshvíld og kvöldinu lauk á veitingasal Abbashi- hótelsins, utandyra, með enn einum dýrindis kvöldverðinum.
Hér eru nokkrar myndir í tímaröð:
Skrifað af Haukur Már Haraldsson